Samgöngur og samræmd próf ofarlega í huga á Lýðræðishátíð unga fólksins

Mannréttindi Skóli og frístund

Kjörstaður var settur upp í strætó fyrir utan Hörpu.
Tvær stúlkur í tíunda bekk setja atkvæði í kjörkassa í strætó. Uppákoman var hluti af dagskrá Lýðræðishátíðar unga fólksins

Lýðræðishátíð unga fólksins fór fram í Hörpu 29. nóvember síðastliðinn. Hátíðin hefur verið haldin um nokkurra ára skeið með ólíku sniði og er markmiðið að gefa ungu fólki aukna möguleika á lýðræðislegri þátttöku og efla það í að taka afstöðu til umræðuefna í þjóðfélaginu.

Lýðræðishátíð unga fólksins er haldin undir hatti Fundar fólksins í Reykjavík. Hún er að miklu leyti skipulögð af ungu fólki sem sjálft velur hvaða umræðuefni það vill setja á oddinn. Á hátíðinni eiga ungmennin samtal við ólíka aðila, svo sem stjórnmálaflokka, stofnanir, frjáls félagasamtök og aðra sem þau velja til þátttöku. Lýðræðishátíðin er styrkt af Reykjavíkurborg og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu auk þess sem mennta- og barnamálaráðuneytið kom að verkefninu að þessu sinni.

Markhópur Lýðræðishátíðar unga fólksins eru ungmenni frá 14 til 25 ára aldurs, en yngri og eldri ungmenni eru einnig velkomin. Fer hátíðin fram með ýmsum hætti, svo sem umræðufundum, vinnustofum og ýmsum óhefðbundnari viðburðum. Almannaheill, samtök þriðja geirans, sáu um undirbúning hátíðarinnar og komu sjálfboðaliðar og skipuleggjendur frá aðildarfélögum samtakanna.

Ungmenni á Lýðræðishátíð unga fólksins í Hörpu. Sitja í sal með hendur á lofti til að kjósa á milli málefna.

Áhugaverðar niðurstöður kosninga í strætó

Að þessu sinni var tekið á móti um 130 nemendum úr tíunda bekk úr fjórum skólum í Reykjavík; Sæmundarskóla, Ingunnarskóla, Tjarnarskóla og Víkurskóla. Fyrst fengu ungmennin fyrirlestur um mikilvægi þess að taka afstöðu og fengu þau svo að reyna á eigin skinni að snúið getur verið að taka afstöðu til mála, ekki síst þeirra sem þau þekkja lítið til. Næst var sest að umræðuborðum þar sem þátttakendur sjálfir fengu orðið með aðstoð umræðustjóra. Málefni til umræðu voru samræmd próf og inntökuskilyrði í framhaldsskóla, símalausir skólar, hvort færa ætti kosningarétt niður í 16 ár og loks samgöngumál, það er strætó og Borgarlína. Loks gengu ungmennin til kosninga á kjörstað sem komið var upp í strætisvagni fyrir utan Hörpu. Ekki var um að ræða kosningar á milli flokka, þótt kosningar til Alþingis stæðu fyrir dyrum, heldur áttu ungmennin að kjósa um hvert málefnanna sem rædd voru á umræðuborðunum skipti þau mestu máli. Niðurstöðurnar voru áhugaverðar:

38 atkvæði- Samgöngumál

37 atkvæði- Samræmd próf

22 atkvæði- Kosningaréttur

11 atkvæði- Símalaus skóli

Hátíðin gekk afar vel og tók Reykjavíkurráð ungmenna virkan þátt. Er það mat þeirra sem komu að framkvæmdinni að fram sé komið fyrirkomulag sem byggja má á næstu árin.

Samantekt um Lýðræðishátíð unga fólksins 2024.

Ungmenni í röð við strætó fyrir utan Hörpu, en hann var útbúinn sem kjörstaður í tengslum við Lýðræðishátíð unga fólksins.