Salt til hálkuvarna fyrir íbúa

Umhverfi

Skrifstofa borgarlandsins vill koma því á framfæri að hægt er að nálgast salt til hálkuvarna í nærumhverfi íbúa. Mynd/Róbert Reynisson
Horft úr lofti yfir gatnamót. Bílar á ferð.

Hægt er að nálgast salt til hálkuvarna á tólf stöðum í borginni en undanfarna daga hefur skapast mikil hálka á götum og stígum borgarinnar. Fólk er hvatt til að nýta sér þessa þjónustu Reykjavíkurborgar. Starfsfólk vetrarþjónustu borgarinnar hefur verið með viðbúnað vegna hálkunnar, sem hefur falist í að salta götur ásamt göngu- og hjólaleiðum eins ört og unnt er.

Ekki hefur verið unnt að hálkuverja eins oft og þörf er á sums staðar þar sem veðurfarsaðstæður hafa verið mjög breytilegar sem hefur skapað aðstæður sem erfitt er að eiga við. Frost og þíða hafa verið á víxl, sem gerir allar hálkuvarnir erfiðar. Tæki hafa verið úti að sinna verkefninu undanfarna daga.

Mæta með fötu og skóflu

Skrifstofa borgarlandsins vill koma því á framfæri að hægt er að nálgast salt til hálkuvarna í nærumhverfi íbúa. Annars vegar er hægt að fara á hverfastöðvar við Fiskislóð, Stórhöfða og Jafnasel til að nálgast sand og salt og hins vegar er hægt að taka salt úr salthrúgum víðsvegar um borgarlandið. Staðsetning þeirra sést á meðfylgjandi korti.

Fólk er hvatt til að nýta þessa þjónustu en miðað er við að hver og einn taki með sér ílát, til dæmis fötu, ásamt skóflu til að moka saltinu í ílátið.

Fólk er einnig hvatt til að nota mannbrodda í gönguferðum og almennt að fara varlega á meðan þetta ástand varir.

Mynd sem sýnr hvar hægt er að nálgast salt og sand:

Kort sem sýnir staðsetningar salthrúga í borgarlandinu.