Reykvíkingur ársins heimsótti borgarstjóra

Mannlíf

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Mikael Marinó Rivera, Reykvíkingur ársins 2023, í Ráðhúsinu með viðurkenningar sínar fyrir Reykvíking ársins og heiðursfélaga Veiðifélags Rimaskóla.

Mikael Marinó Rivera, sem útnefndur var Reykvíkingur ársins 2023, heimsótti Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Ráðhús Reykjavíkur í dag og fékk viðurkenningu sína formlega afhenta.

Mikael er grunnskólakennari í Rimaskóla í Grafarvogi og hefur hann farið nýjar leiðir til að virkja nemendur sem ekki finna sig í hefðbundnum námsgreinum í skólanum. Hefur hann meðal annars boðið upp á valáfanga í fluguveiði og kynnt veiðina fyrir unglingum af eigin frumkvæði, þar sem hann blandar kennslu í náttúru- og líffræði við kynningu á fluguveiði sem íþrótt og góðu útivistartækifæri. Fór því afar vel á því þegar borgarstjóri tilkynnti valið á Reykvíkingi ársins í þrettánda sinn, við opnun Elliðaánna í sumar. 

Boðberi gleði og óhefðbundinna leiða í skólastarfi 

Mikael hefur ekki aðeins horft til veiðinnar þegar kemur að óhefðbundnum valgreinum sem hann býður upp á en meðal annarra greina hans eru Ökuskóli Mikaels, sem er undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám, Lord of the Rings, þar sem kafað er dýpra í hugarheim Tolkiens og hlaðvarp, þar sem nemendur læra að gera hlaðvörp, allt frá handritagerð til birtingar á efni. Þá hefur hann boðið upp á valáfanga um Evrópuknattspyrnuna þar sem farið er yfir leiki vikunnar í stærstu deildum Evrópu og fleira. Hefur hann þannig með ýmsum leiðum unnið þrekvirki við að efla áhuga nemenda sem komnir eru með skólaleiða. Þá hefur hann ýtt undir góðan starfsanda í Rimaskóla og fært gleði inn í skólastarfið með ýmsum hætti. 

Mikael Marinó Rivera ásamt hópi nemenda sinna við opnun Elliðaánna 2023, en hann er Reykvíkingur ársins. Á myndinni eru þeir veiðiklæddir og standa í grasinu.

Mikael ásamt nokkrum nemenda sinna við opnun Elliðaánna í sumar.

Vel fór á með Mikael og borgarstjóra í dag þar sem þeir hittust á notalegum nótum á aðventunni og ræddu landsins gagn og nauðsynjar. Má jafnvel gera því í skóna að veiði hafi borið á góma. Mikael kom færandi hendi og veitti Degi heiðursverðlaun Veiðifélags Rimaskóla, sem staðfestir að Dagur sé fyrsti heiðursfélagi þess. Þá fékk borgarstjóri spilið „Makkerinn“ sem er spurningaspil um stangveiði á Íslandi, en Reykvíkingur ársins er einmitt höfundur spilsins sem er væntanlegt í verslanir. 

Við óskum Mikael aftur til hamingju með útnefninguna og þökkum fyrir frábær störf hans í reykvísku skólakerfi.