Reykjavíkurborg bregst við nýju hættuástandi

Covid-19

""

Reykjavíkurborg hvetur starfsfólk til að virða nálægðarreglur og að nota grímur við umönnun og önnur þjónustustörf. Unnið er að gerð frekari áætlana um fyrirkomulag á fjölbreyttri starfsemi borgarinnar sem tekur mið af nýrri stöðu í baráttunni við heimsfaraldurinn Covid-19.

Á fundi neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar í morgun kom fram að afar fá smit hafa komið upp hjá íbúum heimila sem rekin eru af velferðarsviði og að vel hafi gengið að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Einnig kom fram að í flestum tilfellum þar sem smita hafi gætt hjá starfsfólki hafi verið um að ræða fólk í sumarleyfi. Starfsfólki velferðarsviðs var gert að setja upp grímur í allri umönnun í síðustu viku og þá voru einnig settar reglur um skimun áður en snúið er aftur til starfa eftir utanlandsferðir eða þátttöku í stórmótum eða hátíðum.

Markmið að starfssemi raskist sem minnst

Sú staða sem er komin upp í samfélaginu mun hafa afleiðingar fyrir fjölbreytta starfssemi borgarinnar, að líkindum fram yfir gildistíma nýrrar reglugerðar. Unnið er að gerð áætlana fyrir starfssemi skóla- og frístundastarfs, leiksskóla, íþróttastarf, þjónustu velferðarsviðs, og aðra starfsemi borgarinnar sem taka gildi í næstu viku þegar starfsemi eykst á ný eftir sumarleyfi.

Starfsemi þeirra fjögurra leikskóla sem eru með fulla starfsemi núna hefur ekki skerst að neinu leyti og unnið er að skipulagi starfs hjá þeim leiksskólum sem munu opna aftur eftir verslunarmannahelgina. Sama á við um annað skólastarf. Vel hefur gengið að taka upp fjöldatakmarkanir á sundstöðum borgarinnar og unnið er að skipulagi á annarri starfsemi.  Þá er verið að skoða hvort og þá með hvaða hætti muni verða hægt að halda upp á Menningarnótt í Reykjavík. Almennt hefur starfsfólk borgarinnar brugðist hratt og örugglega við breyttum aðstæðum og tekið upp verklag sem komið var á í fyrri bylgjum.

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar starfar í dag á hættustigi og gefur út leiðbeiningar til starfsfólks borgarinnar (English and Polish below) í samræmi við gildandi almannavarnastig. Markmið aðgerða er að halda út eins lítið skertri þjónustu og hægt er þrátt fyrir nýjar takmarkanir.

Instructions for the current civil protection level and regulations

Wytyczne dotyczące nowych zasad ochrony sanitarnej

Nýjar samkomutakmarkanir ríkisstjórnarinnar frá 25. júlí til 13. ágúst.

Helstu atriði:

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
  • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
  • Grímuskylda verður tekin upp þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu, til að mynda í verslunum.Þá er grímuskylda fyrir áhorfendur á íþróttaviðburðum og á menningarviðburðum á borð við leiksýningar, tónleika og bíósýningar. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin.
  • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.
  • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
  • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
  • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
  • Opnunartími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23:00 (tæma þarf staði fyrir miðnætti) og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými. Vínveitingar bornar fram til sitjandi gesta. Skrá skal gesti.