Reykjavík með í Montréal-yfirlýsingunni um líffræðilega fjölbreytni

Loftslagsmál Umhverfi

Vatnsmýrin í Reykjavík. Mynd/Róbert Reynisson
Kona á gangi í Vatnsmýrinni

Borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Dagur B. Eggertsson, undirritaði yfirlýsingu um skuldbindingu um vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni í tengslum við COP15-fund Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Montréal í Kanada. Yfirlýsingin var birt á fundinum í gær.

Montréal-yfirlýsingin er að fullu í takt við stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni, sem samþykkt var í janúar 2016. Borgarstjóri sagðist í bréfi til Valerie Plante borgarstjóra Montréal vera ánægður með tækifærið til að ítreka skuldbindingu Reykjavíkurborgar hvað varðar líffræðilega fjölbreytni og verndun lífríkisins. Hann sagðist fagna því að taka höndum saman með öðrum borgum með því að skrifa undir þessa mikilvægu yfirlýsingu.

Borgir í fararbroddi

Líffræðileg fjölbreytni á undir högg að sækja á heimsvísu, því miður að miklu leyti vegna umsvifa mannsins en athafnir hans hafa beint eða óbeint valdið eyðingu búsvæða, hnignun vistkerfa og útdauða tegunda. Sífellt meiri vilji er meðal almennings og stjórnvalda til að hlúa að og vernda lífverur og umhverfi þeirra. Borgir víða um heim eru í fararbroddi í þeirri vegferð enda eru ákvarðanir um landnotkun og nýtingu náttúruauðlinda veigamiklar á vettvangi þeirra. 

Í takt við það hvatti Plante borgar- og bæjarstjórnafólk um allan heim að vinna að því að vernda líffræðilega fjölbreytni á sveitarstjórnarstiginu. „Fólk er tilbúið en við verðum að vísa veginn. Við þurfum stundum að taka erfiðar ákvarðanir en það er hlutverk okkar,“ hefur CTV News í Montréal eftir Plante.

COP15 er fimmtánda ráðstefna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni en hún fer fram dagana  7.-19. desember í Montréal. Þar setjast fulltrúar ríkja niður og vinna í sameiningu að nýrri stefnu og uppfærðri aðgerðaráætlun til að vernda og koma í veg fyrir hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Fulltrúar Íslands taka þátt í fundinum.