Búið er að opna fyrir umsóknir í aðra úthlutun úr loftslagssjóði ungs fólks. Nú þegar hafa tíu fjölbreytt verkefni tryggt sér styrk úr sjóðnum. Verkefnin spanna allt frá fræðsluviðburðum og ferðum, almenningssamgöngukeppnum og hakkaþonum til tilrauna til að hindra jarðvegsrof.
Markmið sjóðsins er að virkja ungmenni á aldrinum 15-24 ára í leit að lausnum á loftslagsvandanum og styrkja ný verkefni sem vinna gegn loftslagsvánni. Til úthlutunar er 1.900.000 krónur. Hámarksupphæð styrkja er 690.000 krónur.
Skilyrði fyrir úthlutun er að verkefni séu hönnuð og framkvæmd af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og að þau tengist beint loftslagsstefnu Reykjavíkur. Samtök, hópar, nemendafélög og skólar geta öll sótt um styrk.
Umsóknarfrestur er til og með 12. september og mun úthlutun fara fram fyrir 30. september. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.