Öll þjónusta byggingarfulltrúa Reykjavíkur er nú orðin stafræn. Byggingarfulltrúi er búinn að vera á stafrænni vegferð frá árinu 2022 en þá var umsókn um byggingarleyfi gerð rafræn. Embætti byggingarfulltrúa er afkomandi byggingarnefndar sem var stofnuð 1839. Embættið er því næstum 200 ára gamalt og jafnframt það elsta á Íslandi.
Í hverju felst þetta?
- Allar umsóknir hjá byggingarfulltrúa eru komnar á stafrænt form og aðgengilegar á Mínum síðum á reykjavik.is eða í gegnum gátt HMS.
- Öll eyðublöð og skráningar hjá byggingarfulltrúa eru stafrænar. Einnig er hægt að senda formlega fyrirspurn til byggingarfulltrúa í gegnum Mínar síður á reykjavik.is áður en hönnun hefst til að kanna hvort að það sé líklegt að byggingarleyfi fáist fyrir framkvæmdinni.
- Allt útgefið efni frá byggingarfulltrúa er stafrænt.
Einfaldari og aðgengilegri vefur
Enn fremur er búið að uppfæra vefsíður með upplýsingum um starfsemi byggingarfulltrúa. Markmiðið er að gera það einfaldara og aðgengilegra fyrir fólk að afla upplýsinga um byggingarleyfi, við hverju megi búast í ferlinu sem og annað sem tengist því að byggja og breyta í borginni.
Rafrænar teikningar
Með rafrænni byggingarleyfisumsókn fór byggingarfulltrúi að taka á móti rafrænum teikningum. Teikningar eru nú rafrænt stimplaðar með vatnsmerki byggingarfulltrúa og bunkinn innsiglaður þegar þær hafa verið samþykktar. Aðaluppdrættir þurfa ekki að berast byggingarfulltrúa með undirritun aðalhönnuða þar sem þeir eru innsiglaðir með rafrænum hætti í gegnum rafræna undirritunarkerfið Dokobit.
Alla rafræna séruppdrætti og teikningar á að senda inn til samþykktar hjá byggingarfulltrúa í gegnum mannvirkjagáttina með undirskrift (vatnsmerki) bæði sérhönnuðar og hönnunarstjóra.
Frekari þróun þvert á sveitarfélög
Einnig tekur byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar þátt í þróun nýrrar mannvirkjagáttar HMS, þvert á sveitarfélög, sem nú er í smíðum. Sú umsóknargátt mun taka við af þeirri sem er nú í notkun.
Greiningar hafa leitt í ljós að fólk vill skila inn gögnum rafrænt og spara þann tíma sem fer í að skila gögnum á pappír.