Nýtt umhverfis- og heilbrigðisráð heldur fyrsta fund

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

""

Fyrsti fundur umhverfis- og heilbrigðisnefndar var haldinn miðvikudaginn 4. júlí. Ráðið fer í sumarleyfi frá 11. júlí.

Á fundi borgarstjórnar þann 19. júní 2018 var svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna samþykkt: Borgarstjórn samþykkir að stofna umhverfis- og heilbrigðisráð. Ráðið fari með loftslagsmál, loftgæði, úrgangsmál og sorphirðu, ásamt verkefnum heilbrigðisnefndar. Ráðið verður í flokki I skv. samþykkt um kjör og starfsaðstöðu borgarfulltrúa. Forsætisnefnd er falið að vinna samþykkt fyrir ráðið í samráði við umhverfis- og skipulagssvið sem skal lögð fram til samþykktar á fyrsta fundi borgarstjórnar í september. Ráðið starfar samkvæmt samþykkt um heilbrigðisnefnd þar til ný samþykkt liggur fyrir.

Fyrsti fundur ráðsins var 4. júlí og þá var lögð fram tillaga formanns umhverfis- og heilbrigðisráðs að fundadagatali 2018 til samþykktar. Gert er ráð fyrir að fundir umhverfis- og heilbrigðisráðs verði haldnir á miðvikudögum og hefjast þeir kl 9. og standa að jafnaði til kl. 14. Sumarfrí stendur yfir frá 11. júlí til 8. ágúst og næsti fundur 15. ágúst.

Aðalmenn í ráðinu eru Líf Magneudóttir (VG) formaður, Kristín Soffía Jónsdóttir (S), Magnús Már Guðmundsson (S), Sigurborg Ósk Haraldsdóttir (P), Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Vigdís Hauksdóttir (M).

Aðsetur umhverfis- og heilbrigðisráðs er að Borgartúni 10-12. Ritari ráðsins er Örn Sigurðsson skrifstofustjóri umhverfis- og skipulagssviðs. Verkefnisstjóri ráðsins er Sigurjóna Guðnadóttir

Síða ráðsins