„Við vitum öll að Reykjavíkurborg er fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og mér finnst eiginlega tími til að við rifjum upp fyrir Íslendingum hvað er jákvætt við miðborgina“, segir Guðrún Jóhannesdóttir eigandi Kokku og kaupmaður við Laugaveginn í rúm tuttugu ár.
Markaðsfélag skapi jákvæða upplifun
Guðrún og Jakob E. Jakobsson veitingamaður á Jómfrúnni voru með erindi á á kynningarfundinum Athafnaborgin 2023 þar sem þau sögðu frá nýju markaðsfélagi sem nýlega var stofnað á forsendum rekstraraðila. Miðborgin Reykjavík, eins og félagið heitir, hefur þann tilgang að vera markaðsfélag fyrir hagaðila miðborgarinnar til að skapa jákvæða upplifun og efla atvinnurekstur, verslun og þjónustu og störf á svæðinu.
Erindi Jakobs og Guðrúnar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Allt frá A til Ö í miðborginni
Guðrún minnti í kynningu sinni á þá staðreynd að yfir 200 verslanir væru í miðborginni. „Og þetta eru ekki allt lundabúðir. Það eru yfir 70 verslanir sem selja föt og skó. Við erum með fjölda gleraugnaverslana, skartgripa og úraverslana. Við erum með alls konar aðra þjónustu,“ sagði hún. „Við er með alla þessa menningu líka og listagallerí og allt frá A til Ö í þessari borg, þessari miðborg."
Miðborgin þarf að eiga sér rödd
Jakob og Guðrún sitja í stjórn hins nýja félags, Miðborgin Reykjavík – markaðsfélag. Jakob sagði að miðborgin væri í þörf fyrir að eiga sér rödd í þeirri samkeppni sem væri. Fyrst væri þó að ná til allra þeirra sem standa í rekstri. „Við viljum ekki bara ná til kaupmanna og veitingamanna heldur allra sem eru með einhverja starfsemi í miðborginni.“ Jakob og Guðrún hvöttu alla til að taka þátt hvort sem það væru einyrkjar eða stór fasteignafélög.
Þau segja vera mikla stemningu fyrir samtalinu hjá rekstraraðilum í miðborginni og gera ráð fyrir góðum undirtektum á næstunni.
Verkefnisstjóri hefur verið ráðinn til félagsins og er það Róbert Aron Magnússon – með robert@midborgin.is og vefsíðan er midborgin.is