Nýr loftslagssjóður ungs fólks

Loftslagsmál

Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en reykvísk ungmenni á aldrinum 15-24 ára verða hvött til þátttöku. Mynd/Róbert Reynisson
Loftmynd af húsum og sjó í og við Reykjavík.

Reykjavíkurborg hefur hlotið styrk frá Bloomberg Philanthropies til að stofna loftslagssjóð ungs fólks í Reykjavík. Reykjavík er ein af hundrað borgum í 38 löndum víðs vegar að í heiminum sem fær fjármagn úr þessum nýja sjóði. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en reykvísk ungmenni á aldrinum 15-24 ára verða hvött til þátttöku. Styrkurinn hljóðar upp á sjö milljónir króna með möguleika á 14 milljóna króna viðbótarframlagi og er tilgangurinn að styrkja margs konar smærri verkefni sem ungmennin stýra sjálf.

Tengjast markmiðum um kolefnishlutlausa borg

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið þennan styrk og að það sé horft til Reykjavíkur í loftslagsmálum. Við hlökkum til að stofna þennan spennandi loftslagssjóð. Ég held að borgin gæti haft góðan stuðning af loftslagsráði ungs fólks og mikið gagn af því að styðja ungt fólk til góðra grænna verkefna“, segir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs.

Styrkhæf verkefni geta verið af fjölbreyttum toga og til að mynda tengst samgöngum eða úrgangsmálum og sem dæmi falið í sér stofnun loftslagsráðs ungmenna, vitundarvakningarherferðir, loftslagstengdar rannsóknir, gróðursetningu trjáa eða hakkaþon um moltu. Verkefnin verða öll að styðja loftslagsáætlun og tengjast markmiðum Reykjavíkurborgar um kolefnishlutlausa borg fyrir árið 2040.

Borgir leiðandi í loftslagsmálum

„Loftslagsbreytingar eru áskorun sem krefst þátttöku allra hópa og það er úrslitaatriði að ungt fólk, sem hefur hvað mest að vinna, hjálpi til að vísa veginn,“ er haft eftir Michael R. Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York og loftslagssendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, í fréttatilkynningu.

Borgir í heiminum gegna leiðandi hlutverki í loftslagsmálum og eru oftar en ekki með metnaðarfylltri markmið en löndin sjálf og vinna hraðar að því að draga úr kolefnislosun. Til að mynda fékk Reykjavík toppeinkunn í loftslagsmálum árið 2023.

Umsóknir í sumarbyrjun

Ljóst er að þátttaka ungs fólks skiptir máli og vitað er að þessi aldurshópur hefur áhyggjur af loftslagsvánni en samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum eru 84% ungmenna áhyggjufull og yfir 60% finnst ríkisstjórnin í sínu landi ekki vera að gera nóg. Það er hvati Bloomberg Philanthropies að baki stofnun sérstaks loftslagssjóðs fyrir ungt fólk, sem útvöldu borgirnar fá nú að njóta góðs af.

Í upphafi sumars mun Reykjavík kalla eftir umsóknum frá áhugasömum þátttakendum og jafnframt tilkynna hvaða verkefni gætu verið styrkhæf og fyrirkomulag styrkja. Frekari upplýsingar veitir Benedikt Traustason verkefnastjóri benedikt.traustason@reykjavik.is.