Reykjavík fær æðstu viðurkenningu og toppeinkunn fyrir að vera leiðandi borg í loftslagsmálum á alþjóðavísu. Rúmlega 900 borgir fengu einkunn en Reykjavík er ein af 119 borgum sem fá A í einkunn fyrir gagnsæi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum frá óháða matsfyrirtækinu CDP. Aðeins 13% af borgum sem fengu einkunn fyrir árið 2023 hlutu A.
„Einkunnagjöfin er óháð mat á loftslagsáætlunum Reykjavikurborgar og hvernig okkur miðar. Það er lykilatriði til að vita að við séum á réttri leið. Ég er mjög stoltur af því að við erum í hópi hundrað framsæknustu borga heims í loftlagsmálum því þessi einkunn er ekki sjálfgefin. Þetta hvetur okkur áfram til að fylgja eftir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og öðrum lykilaðgerðum til að höfuðborgarsvæðið verði kolefnishlutlaust líkt og öll sveitarfélög á svæðinu hafa samþykkt sameiginlega.
Samgöngusáttmálinn er stærsta einstaka verkefnið til að glíma við loftslagsáhrif af samgöngum, sem er sá þáttur loftslagsmálanna sem við eigum lengst í land með. Að byggja íbúðir og þjónustu nálægt frábærum almenningssamgöngum er hitt aðalatriðið, öðru nafni samgöngumiðað skipulag. Þessi verkefni eru hluti af Græna planinu sem er heildarsýn Reykjavíkur til framtíðar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.
„Helsti árangur undanfarinna missera er á sviði úrgangsmála þar sem aukin flokkun, minni urðun og tilkoma Gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi hafa skipt mestu. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut og eiga náið samstarf um næstu skref með atvinnulífinu. Líkt og í samgöngunum er lykillinn að árangri að eiga gott samstarf og á næsta ári viljum við fá sem flesta til að eiga þátt í að móta Loftslagssamning fyrir Reykjavík. Að honum þurfa margir að koma að verki,“ segir borgarstjóri.
Forysta í loftslagsmálum
Til að hljóta einkunnina A þurfa borgir að hafa birt samfélagslega losun gróðurhúsalofttegunda í borginni, sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sett sér markmið varðandi endurnýjanlega orku og birt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Borgir sem hljóta einkunnina A þurfa einnig að hafa lokið áhættumati varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum og kynnt hvernig áhrifum loftslagsbreytinga verður mætt. Margar borgir sem hljóta einkunnina A sýna margskonar forystu í loftslagsmálum og njóta pólitísks stuðnings í loftslagsaðgerðum.
Reykjavíkurborg stendur einmitt undir þessum kröfum. Borgin hefur sett loftslagsmál og aðlögun að loftslagsbreytingum í Aðalskipulag, birt upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík um árabil og hefur allt frá árinu 2016 verið með það markmið að verða kolefnishlutlaus 2040. Reykjavík styður við markmið Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Þjóðríki heims munu einmitt koma saman nú í byrjun desember á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna, COP28, til að taka stöðuna varðandi markmið Parísarsamningsins og setja stefnu um næstu skref varðandi loftslagsmál heimsins.
Búið að auka kröfurnar
Reykjavíkurborg birti fyrstu aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum árið 2016, gaf út nýja aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2025 og nýr viðauki við Aðalskipulag Reykjavíkur með loftslagsáherslum var samþykktur í upphafi árs 2022. Reykjavíkurborg er einnig ein af 112 þátttökuborgum í Evrópusamstarfi um kolefnishlutlausar og snjallar borgir 2030 sem krefst enn metnaðarfyllri aðgerða og víðtæks samstarfs.
Vegferðin að því að verða kolefnishlutlaus borg er hluti af Græna plani borgarinnar sem er fjárfestingaráætlun til næstu 10 ára. Stór hluti fjárfestinganna er vegna verkefna og uppbyggingar hverfa og innviða sem varða veginn í átt að kolefnishlutleysi, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og aðlaga borgina að áhrifum loftslagsbreytinga.
Til að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C þarf metnaðarfullar aðgerðir og þess vegna eru kröfur til þess að hljóta einkunnina A í sífelldri endurskoðun og hafa verið auknar. Niðurstaðan er því sú að innan við 13% borga hljóta einkunnina A.
108 milljónir manna búa í borgunum á topplistanum
Borgir á topplistanum eru leiðandi í loftslagsmálum og grípa almennt til tvöfalt fleiri markvissra aðgerða gegn loftslagsvá en þær borgir sem ekki ná A í einkunn og eru að sama skapi að koma auga á tvöfalt fleiri tækifæri í loftslagsmálum, samkvæmt CDP.
Borgirnar eru vítt og breitt um heiminn; allt frá Kanada til Japan og frá Suður-Afríku til Nýja-Sjálands. Samtals búa 108 milljónir manns í þessum borgum, sem er þó aðeins lítill hluti af þeim 4,2 milljörðum manna sem búa í borgum um heim allan.