Arkitektanemarnir Gísli Hrafn Magnússon og Sigurbergur Hákonarson hönnuðu skemmtilegt útisvæði við gatnamót Laugalækjar og Hrísateigs. Þetta er hluti af verkefninu Torg í biðstöðu en markmið verkefnisins er að búa til skemmtilegri svæði, hampa því óvænta og vera vettvangur tilrauna með borgarumhverfið.
„Við erum saman í bekk á síðasta ári í arkitektúr í Listaháskólanum. Við höfðum áður gert skólaverkefni saman og langaði að gera eitthvað meira saman,“ segir Sigurbergur og þótti þeim líka þátttaka í verkefninu gott tækifæri til að fá sumarvinnu við hæfi.
Þeir tengjast báðir hverfinu í Laugardal og fannst gaman að styrkja hana með þessu verkefni. Þeir lögðu líka áherslu á tenginguna með því að gera þennan áningarstað að óði til arkitektanna Gísla Halldórssonar og Sigvalda Thordarsonar en arkitektarnir byggðu fyrstu hús sín hlið við hlið í Efstasundi. Gísli og Sigvaldi stunduðu nám við akademíuna í Kaupmannahöfn á sama tíma og opnuðu enn fremur fyrstu teiknistofuna saman. Samband þeirra og samstarf hafði mikil áhrif á Laugardalinn.
Gísli Hrafn segir að þeir Sigurbergur hafi verið í námskeiði í skólanum hjá Pétri Ármannssyni, sem vakti upp þessar sögulegu tengingar sem skiluðu sér í verkefnið, en í því var farið yfir áhrif Sigvalda og Gísla á hverfið. Í verkinu endurspeglast þetta fyrst og fremst í litanotkun en gulur, blár og hvítur litur fléttast inn í setsvæðið.
Áhersla á loftslagsmál
Áherslan í Torg í biðstöðu í ár var á loftslagsbreytingar og hvernig hægt sé að auka kolefnisbindingu og ýta undir líffræðilegan fjölbreytileika í borgarrýmum til að skapa kjöraðstæður til dvalar fyrir fólk, fugla og flóru.
Í tengslum við þemað kom upp sú hugmynd hjá þeim að nýta byggingaúrgang í sætin. Setsvæðið er byggt upp af vírgrindum sem fylltar eru með byggingaúrgangi, steypubrotum frá uppbyggingarsvæði á Kirkjusandi, steinsnar frá Laugalæk.
„Við sáum að þarna var töluvert mikið af efni sem var fullkomlega nýtanlegt fyrir þetta og gæti líka nýst í eitthvað annað. Það er búið að flytja efniviðinn til Íslands, steypa þessa steypu, setja upp og taka niður,“ segir Sigurbergur.
„Yfirleitt er þetta efni flutt annað eins og í landfyllingar,“ segir Gísli Hrafn og setur spurningarmerki við það.
Almenningssvæði fyrir alla
Útkoman er skemmtilegt útisvæði, almenningssvæði þar sem hægt er að setjast niður og dvelja. Heilmikla þjónustu er að finna við þessi gatnamót og geta allir nýtt sér þennan nýja áningarstað.
Vírnetseiningarnar skapa skemmtilegt rými og skýla bæði fyrir bílum og nýtast sem bekkir en einingarnar voru einmitt í réttri hæð til að nýtast sem setsvæði. Þeir benda einnig á að mögulegt sé að læsa hjólum við netið.
Þarna eru því sannarlega kjöraðstæður til dvalar fyrir fólk og hvað flóru og fugla varðar þá er inni í einingunum að finna bæði fuglabað og potta með eini sem er sígræn planta og á eftir að dreifa betur úr sér þarna með tíð og tíma.
„Þetta verkefni [Torg í biðstöðu] er fyrst og fremst til að kanna ákveðin svæði og kanna hversu mikið almenningslíf sé að finna þarna. Þú finnur það ekki fyrr en þú setur eitthvað niður. Það er því mikilvægt að prófa sig áfram með litlum verkefnum sem geta þróast yfir í eitthvað varanlegt,“ segir Sigurbergur að lokum.