Nýir kjörstaðir og breytt kjördæmamörkun í Reykjavík

Kosningar

""

Alþingiskosningar fara fram laugardaginn 25. september næstkomandi. Kosið verður á 23 stöðum í Reykjavík og bætast fimm nýir kjörstaðir við í þessum kosningum. Þeir eru Frostaskjól (KR-heimilið), Höfðatorg, Álftamýrarskóli, Foldaskóli og Rimaskóli.

Það er stefna Reykjavíkurborgar að bæta aðgengi kjósenda að kjörstöðum og hvetja til vistvænna samgangna. Liður í því er að fjölga kjörstöðum og færa þjónustuna þannig sem næst íbúum. Í mörgum tilfellum hefur kjörstaður færst nær heimili fólks og eru kjósendur því eindregið hvattir til að fletta upp hvar þeir eiga að kjósa. Þær upplýsingar ásamt ýmsum öðrum má finna á vef Reykjavíkurborgar. Þarna er til dæmis búið að merkja inn á kortið gönguleið á kjörstað, vegalengd hennar og staðsetningu næstu strætóbiðstöðvar. Einnig má fletta upp sínum kjörstað út frá kennitölu á vef Þjóðskrár.

Allir kjörstaðir í borginni verða opnir frá klukkan 9 til 22 á kjördag og að kjörfundi loknum fer talning fram í Laugardalshöll. Hún er öllum opin og verður myndstreymi frá talningunni á vef borgarinnar, reykjavik.is. 

Allir kjörstaðir í Reykjavík eru aðgengilegir fyrir fatlað fólk en aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks í Reykjavík safnar ábendingum um aðgengismál kjörstaða borgarinnar.

Leita má upplýsinga um allt sem varðar kosningar í síma 411-4915 eða með pósti á netfangið kosningar@reykjavik.is.

Áhrif breyttrar kjördæmamörkunar
Vakin er athygli á því að Landskjörsstjórn hefur ákveðið að breyta kjördæmamörkum Reykjavíkurkjördæmanna. Áhrifin eru þau að kjósendur í Grafarholti sem búsettir eru fyrir norðan Kristnibraut en vestan Jónsgeisla kjósa nú í Reykjavíkurkjördæmi suður, en voru áður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Kjörstaður þeirra breytist ekki og er sem fyrr í Ingunnarskóla.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í Kringlunni og í Smáralind, Kópavogi og er opið milli 9 og 22 alla daga.