Búið er að opna nýja upplýsingagátt þar sem finna má upplýsingar um alla helstu framkvæmdir sem heyra undir Samgöngusáttmálann en þar á meðal er Borgarlínan og ýmsar stofnvegaframkvæmdir auk uppbygging göngu og hjólastíga. Í gáttinni er hægt að skoða yfirlitskort, stöðu framkvæmda, umfang, áætluð verklok, myndefni og ýmiss konar fróðleik um samgöngumál. Upplýsingagáttin er á slóðinni Verksja.is.
70 bílar bætast við umferðina í hverri viku
Álag á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins hefur aukist gríðarlega síðustu ár og í hverri viku bætast að meðaltali 70 bílar við umferðina. Sífellt fleiri nýta sér hjóla- og göngustíga og úrbætur í almenningssamgöngum eru lykilatriði við að sporna gegn frekari umferðartöfum.
Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu er hröð og kallar á margþætta uppbyggingu í samgöngum næstu áratugi. Í uppfærðum Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er megin áhersla lögð á styttri ferðatíma, minni tafir og aukið umferðaröryggi. Uppbygging stofnvega og stórbættar almenningssamgöngur, auk fjölgunar hjóla- og göngustíga eru lykilþættir í að tryggja betri samgöngur.
Byggja upp 100 km af stígakerfi
Áætlað að byggja upp alls um 100 kílómetra stígakerfi á höfuðborgarsvæðinu, auk undirganga og brúa. Nú þegar er framkvæmdum lokið við um 20 kílómetra af göngu- og hjólastígum. Gert er ráð fyrir að um 13% af fjárfestingum Samgöngusáttmálans fari í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng.
Borgarlína í sérrými með forgang á gatnamótum
Borgarlínan er hágæða almenningssamgangnakerfi þar sem Borgarlínuvagnar munu að mestu aka í sérrými og hafa forgang á gatnamótum. Þannig munu Borgarlínuvagnar ferðast um umferðarþyngstu svæði höfuðborgarsvæðisins án þess að önnur umferð hafi áhrif á ferðir þeirra. Fossvogsbrú er hluti af fyrstu lotu Borgarlínu en að auki er gert ráð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendum um brúna. Áætlað er að um 10 þúsund manns muni daglega nýta sér brúna. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist snemma á nýju ári.
Sex ný verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt uppfærðum Samgöngusáttmála verður ráðist í sex ný verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu auk þeirra þriggja sem þegar er lokið. Öll verkefnin eiga að auka flæði og umferðaröryggi. Framkvæmdir við Arnarnesveg eru í gangi en tenging hans við Breiðholtsbraut og Rjúpnaveg verður mikil samgöngubót.
Áætlað er að árið 2040 verði fjöldi íbúa höfuðborgarsvæðisins kominn vel yfir 300 þúsund, hafi þá fjölgað um 100 þúsund frá 2019. Í ársbyrjun 2024 bjuggu tæplega 244 þúsund manns í sveitarfélögunum sexReykjavík, Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Með framkvæmdum Samgöngusáttmálans verður styrkari stoðum rennt undir allar samgönguleiðir, álaginu dreift og þjónusta við íbúa bætt.
- Skoða upplýsingagátt um Samgöngusáttmálann á Verksja.is
- Skoða meira um Borgarlínuna á vef Reykjavíkurborgar
- Vefur Betri samgangna