Ný kvikmyndaver og skapandi leikhúsrými í Gufunesi

Baltasar Kormákur segir frá uppbyggingu í Gufunesi
Baltasar Kormákur á sviði

Grænt ljós hefur verið gefið á viðræður við RVK Studios, True North og Vesturport um lóðavilyrði í Gufunesi. Annars vegar er það við kvikmyndafyrirtækin RVK Studios og True North um uppbyggingu fjögurra kvikmyndavera. Hins vegar verða hafnar viðræður við Vesturport um uppbyggingu á menningarhúsnæði, sem og listamanna- og íbúðarrými í Gufunesi. Þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í gær.

8.800 fermetrar undir kvikmyndaver

Fyrirhuguð kvikmyndaver RVK Studios og True North koma til viðbótar tveimur kvikmyndaverum RVK Studios í Gufunesi. Fyrirtækin sækjast eftir lóðum undir fjögur 1.600 fermetra kvikmyndaver sem hvert verður með 600 fermetra þjónusturými. Samtals eru það um 8.800 fermetrar.

Gangi samningar eftir þýðir það tvöföldun aðstöðu miðað við núverandi kvikmyndaver.

Áformin voru kynnt á fundi í Ráðhúsinu í dag. Baltasar Kormákur, eigandi RVK Studios, kynnti framtíðarsýn þeirra fyrir Gufunes  og má skoða hana á upptöku frá fundinum í morgun - sjá hér fyrir neðan. 

.
Baltasar rifjaði upp að þegar RVK Studios flutti inn i Gufunesi höfðu ekki allir trú á verkefninu, en það væri hins vegar búið að vera nánast fullt í þeim rýmum sem þau eru nú með í rekstri. Hann segir að Ísland sé samkeppnishæft á þessu sviði og hann hefur trú á Gufunesi. „Samspil iðnaðar og íbúðahverfa gæti orðið verulega skemmtilegt,“ segir hann.

Leikhús, fjölleikahús og líkamsiðkun

Vesturport leitast eftir lóð undir fjölnotahús á allt að sex þúsund fermetra lóð í Gufunesi. Hugmyndin er að vera með skapandi leikhúsrými sem tengir saman leikhús, fjölleikahús og líkamsiðkun. Vesturport hyggst nota húsið sem æfingarými en hópurinn hefur gert samning við Disney um að stýra uppsetningu á Frosinn (e. Frozen) á Norðurlöndunum.  Inn í hugmyndum Vesturports eru einnig jógasalur, gufubað og listamannaíbúðir.

Hluti af uppbyggingu í Gufunesi

Óli Örn Eiríksson, sem leiðir Athafnaborgina á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara segir að þessar hugmyndir yrðu hluti af 2. áfanga uppbyggingar í Gufunesi, sunnan við núverandi Gufunesveg, sem liggur á milli tveggja núverandi kvikmyndavera RVK Studios. Hann segir að vinna við rammaskipulag muni taka lungann af þessu ári og raunhæft sé að framkvæmdir geti hafist í byrjun næsta árs.

„Reykjavíkurborg er að þróa einstakt hverfi fyrir skapandi greinar í Gufunesi þar sem íbúðabyggð blandast saman við spennandi atvinnugreinar framtíðarinnar í frábærum tengslum við náttúruna með útsýni til Esjunnar og Viðeyjar,” segir Óli Örn.

„Kvikmyndaverið hefur nú þegar farið langt fram úr öllum áætlunum og er í nær stanslausri notkun þrátt fyrir að framkvæmdum þar sé ekki lokið. Það er frábært að fá True North til liðs við RVK Studios í þessari stækkun sem tryggir enn betur að í Gufunesi verði til miðstöð kvikmyndagerðar á Íslandi.”

„Þá eru það frábærar fréttir að Vesturport hafi einnig hug á því að flytja í Gufunes og skapa hér einstakan áfangastað sem mun lyfta hverfinu enn meira upp. Þessi tvö verkefni geta líka skapað fjölda samlegðaráhrifa þar sem þau styðja hvort við annað eftir því sem við á.“

Auglýst var eftir samstarfsaðilum með það að markmiði að laða skapandi fyrirtæki í Gufunes. Fyrirhuguð uppbygging á þessum lóðum verði stórt púsl í endurgerð Gufuness sem hverfis skapandi greina.

Viðbrögð við auglýsingu bárust frá fjölbreyttum hópi fyrirtækja og voru samanlagðar óskir þeirra um 46.600 fermetrar.

Tekið verður mið af óskum og þörfum fyrirtækja inn í þá skipulagsvinnu sem framundan er. Sérstaklega verður hugað að litlum athafnagörðum fyrir smærri smíðaverkstæði sem tengjast skapandi greinum.

Tengt efni: