Ný íbúðabyggð við gömlu höfnina

Atvinnumál Framkvæmdir

""

Samningur um uppbyggingu í Vesturbugt við gömlu höfnina í Reykjavík var samþykktur í borgarráði í dag.  Byggðar verða 176 íbúðir ásamt verslunar- og þjónustuhúsnæði.

Til grundvallar samningnum liggja niðurstöður í samkeppnisútboði sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Að vinningstillögunni standa VSÓ Ráðgjafar ehf., BAB Capital ehf., PK Arkitektar ehf., Basalt arkitektar ehf., Trípólí arkitektar sf. og Krads arkitektar ehf. Tilboðsgjafi hefur nú stofnað sérstakt félag, Vesturbugt ehf., sem annast mun uppbyggingu svæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Framkvæmdir eiga að hefjast innan 15 mánaða frá undirskrift samnings og skal þeim lokið eigi síðar en 60 mánuðum frá undirritun.

Fjölbreytileiki og sameiginleg rými

Opin svæði, torg og sameiginleg rými utandyra skipa veigamikinn sess og unnið var með þá nýbreytni í borgarmyndinni að rými utandyra eru sameiginleg með íbúum húsanna, gestum og öðrum borgarbúum.

Mikil áhersla var lögð á fjölbreytilegt útlit og áferð þannig að hvert húsanna fjögurra hefði sitt sjálfstæða yfirbragð.  Sameiginlegar bílageymslur verða undir húsunum og til að bæta nýtingu þeirra mun Bílastæðasjóður annast rekstur stæðanna.

Atvinnustarfsemi verður á neðstu hæð húsanna og íbúðir á efri hæðum. Eins og á öllum nýjum uppbyggingarsvæðum í Reykjavík verður hugað að fjölbreytileika í íbúðastærð og búsetu, en hluti íbúða verða leiguíbúðir. Til að ná fram markmiðum um félagslega blöndun kaupir Reykjavíkurborg 74 íbúðir  og framselur til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða fyrir sína félagsmenn. Það geta verið félög stúdenta, eldri borgara, Félagsbústaðir, byggingarfélög öryrkja eða byggingarsamvinnufélög. 

Skapandi lausnir og tengingar við hafnarsvæðið

Vinningstillagan þykir sýna sannfærandi heildaryfirbragð sem og fjölbreytni í útfærslu byggðarinnar með því að hvert hús hefur sérkenni í efnisnotkun og hönnun. ,,Í tillögunni koma fram skapandi lausnir í mótun bygginganna og hugmyndir um bogadregin horn einstakra húsa með vísun í hafnarsvæðið er sannfærandi,” segir í greinargerð viðræðu- og matsnefndar Reykjavíkurborgar.

Útisvæði á þökum og hlýleg torg

Almenningsrými eru sögð aðgengileg og bent á að útfærslur þeirra hvetji til samveru. Opin svæði tillögunnar lýsi hugmyndaauðgi og vísa til staðhátta. Hauksbryggjan og Smiðjutorg geta að mati nefndarinnar orðið vettvangur viðburða í borginni.  ,,Útfærsla og hönnun Hauksbryggju gefur fyrirheit um fjölbreytta notkun torgsins,” segir í álitinu.

Þá eru þakgarðar nýttir sem rými fyrir íbúa húsanna og hluti af þeim jafnvel sem nytjagarðar, en einnig eru settar fram hugmyndir um að einstaka þakgarðar verði fyrir almenning.

Torgsvæði eru vinaleg og hlýleg. Flæði inn á og um svæðið sé gott og opið á aðalleiðum. Þá skapi val á yfirborðsefni tengingu við fyrri tíma og sögu staðarins.

Vistvæn byggingartækni og efnisval í háum gæðaflokki

Kopar, náttúrusteinn, zink, gatað ál, viður og keramikflísar eru dæmi um þau efni sem notuð verða í klæðningar húsanna og segir matsnefndin efnisval vera í háum gæðaflokki og lýsa miklum metnaði í útfærslu bygginga.  Matsnefndin telur þetta vera til fyrirmyndar og samræmast hugmyndum um langan líftíma bygginganna.

Áhersla er lögð á náttúrulega loftræstingu, orkusparandi lýsingarbúnað og náttúrulega birtu. Samkvæmt tillögunni verður leitast við að halda ljósmengun utanhúss í lágmarki og þá einkenna blágrænar ofanvatnslausnir opnu svæðin.

Matsnefndin telur hugmyndir um aðgengi að og frá bílakjallara um sérstök stigahús að sameiginlegum útisvæðum byggðarinnar vera áhugaverðar. Gert er ráð fyrir að dagsbirtu njóti í bílakjallara. Tillagan gerir ráð fyrir því að bílageymsla verði máluð í björtum og aðgreinanlegum litum til að auka öryggistilfinningu vegfarenda.


Tengt efni: