Vesturbugt tilbúin til uppbyggingar

Stjórnsýsla Umhverfi

""
Nýjar lóðir í Vesturbugt við gömlu höfnina eru nú tilbúnar til útboðs, en Reykjavíkurborg hefur óskað eftir umsóknum frá áhugasömum aðilum til að taka þátt í forvali og samkeppnisviðræðum vegna byggingarréttar og uppbyggingar á lóðum 03 og 04 við Hlésgötu í Vesturbugt. 
 
Staðsetning miðsvæðis sem og útsýni yfir höfnina og til Esjunnar gerir svæðið eftirsóknarvert til búsetu. Viðræðurnar munu snúast um kaup á byggingarrétti og útfærslu fyrirhugaðrar uppbyggingar auk sölu til Reykjavíkurborgar á íbúðum og bílakjallara á lóðunum. Kaupandi byggingarréttarins fær heimild  til að hanna og byggja um 170 - 176 íbúðir og atvinnu-húsnæði á jarðhæðum. Umfang uppbyggingar er af þeirri stærðargráðu að það er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Viljum vandaðar og hugvitssamlegar lausnir

„Það er ánægjulegt að þessum áfanga skuli vera náð,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.  „Vesturbugtin er áhugaverður staður og mikilvægt að vel verði staðið að uppbyggingu. Við viljum sjá áhugaverða blöndu af íbúahúsnæði, atvinnuhúsnæði og skapandi lausnum og góðri hönnun. Ég er sannfærður um að þetta lykilverkefni eigi eftir að vekja áhuga og athygli góðra þróunar- og uppbyggingaraðila.“ 
 
Uppbygging í Vesturbugt er liður í þeirri stefnu að auka byggð í nálægð við vinnustaði, verslun og þjónustu miðborgarinnar. Deiliskipulag fyrir Vesturbugt gerir ráð fyrir vistvænum áherslum og vönduðum almenningsrýmum sem styðja vel við mannlíf og útivist.  Torg og stígar innan lóða verða hluti almenningsrýmis. Gróður er hluti af frágangi þeirra og hitalögn verður undir göngusvæðum. Í skilmálum eru lögð áhersla á vandað efnisval og og frágang. 

Skilyrði að hluti íbúða verði leiguíbúðir

Áherslur Reykjavíkurborgar í uppbyggingunni eru einnig að styðja við fjölbreytta byggð og gerir borgin ráð fyrir að kaupa um 74 íbúðir af íbúðunum 170 - 176 samkvæmt tilboði bjóðanda.
 
Til að ná fram markmiðum Reykjavíkurborgar um blandaða íbúðabyggð er gerð krafa um að 10% íbúða verði leiguíbúðir.
 
Áhersla er lögð á að ná fram fjölbreyttu yfirbragði byggðarinnar og í deiliskipulagi eru gerðar kröfur um hönnun af mismunandi arkitektastofum með það í huga að fá fram fjölbreytileika í útliti húsa.  Hönnunarteymið þarf að hafa reynslu í húsahönnun, hönnun borgarrýmis, landslagshönnun hönnun opinna svæða og hönnun íbúðarhúsnæðis.
 
Undir húsunum verða bílageymslur með um 170 bílastæðum og verða þau í umsjá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur til að ná fram betri nýtingu þeirra allan sólarhringinn. 

Mögulega samstarf margra aðila

„Það er margt áhugavert og sérstakt við Vesturbugtina. Hér getur verið gott tækifæri fyrir byggingarverktaka, fjárfesta, fasteignafélög og hönnuði að sameinast um að bjóða í verkefnið,“ segir Einar I. Halldórsson formaður starfshóps um Nýju Reykjavíkurhúsin í Vesturbugt.
 
Kynningarfundur verður haldinn miðvikudaginn 11. maí kl. 16.00  í fundarsalnum Vindheimum, Borgartúni 12 - 14, 7. hæð.
 
Nánari upplýsingar um verkefnið eru í auglýsingu á vef Reykjavíkurborgar  reykjavik.is/vesturbugt