Ljósmynd/ fræðsluleiðbeinendur Ársól, Bergur Ari, Hrafnhildur Anna og Lotta Lóa.
Fyrstu nemendur Vinnuskóla Reykjavíkur koma til starfa mánudaginn 10. júní. Skólinn nýtur töluverðra vinsælda um þessar mundir og verða rúmlega 3.400 að störfum í sumar.
Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf og fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Öllum nemendum 8. 9. og 10. bekkja bauðst að koma til starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni.
Mikill undirbúningur að baki
Skrifstofa Vinnuskólans hefur undanfarið unnið að því að raða í hópa fyrir komandi sumar, nemendur mega búast við staðfestingu starfs í þessari viku. Nemendum er raðað í hópa eftir aldri og búsetu. Starfið í sumar spannar þrjú tímabil, 10. júní til 1. júlí, 2. júlí til 22. júlí og 23. júlí til 13. ágúst.
- Daglegur vinnutími fyrir nemendur í 8. bekk er 3,5 klst. á dag fyrir eða eftir hádegi.
- Nemendur í 9. og 10. bekk starfa í 7 klst. á dag.
Vinnuskólinn er með starfsstöðvar við flesta grunnskóla borgarinnar og margir nemendur raðast því á þann stað sem þeir búa næst. Nokkrar starfsstöðvar eru úti í hverfunum eða í almenningsgörðum. Vinnuskólinn er einnig í samstarfi við leikskóla, frístundaheimili, íþróttafélög og félagasamtök þar sem fáir nemendur í einu geta starfað.
Stærsti vinnuveitandi ungs fólks á landinu
Vinnuskólinn í Reykjavík er stærsti vinnuveitandi ungs fólks á landinu. Meginhlutverk hans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf og fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Vinnuskóli leggur ríka áherslu á að veita góða upplifun og fræðslu í fyrstu skrefum þeirra á vinnumarkaði, meðal annars um launaseðla, ferilskrár, vinnusiðferði, tekjuskatt ofl. Fræðslan tekur mið af aldri nemenda.
Vinnuskólinn er útiskóli og flest verkefni skólans snúa að umhirðu gróðurs og beða víðs vegar í borginni.
Fjöldi umsókna fyrir sumarið 2024 fór fram úr væntingum og var ekki hægt að verða að öllum óskum um tímabil og/eða starfsstöðvar. Öll sem skrá sig í Vinnuskólann fá starf og reynt er að koma til móts við óskir nemenda og foreldra.
Fræðsludagskrá leiðbeinenda
65 leiðbeinendur voru ráðnir til Vinnuskólans að þessu sinni.
Nemendur fá góða fræðslu áður en þau mæta til starfa. Læra um fjölmenningu, jafningjafræðslu, ofbeldismenningu, garðyrkju og taka námskeið í skyndihjálp og hinseginfræðslu svo dæmi sé tekið. Einnig fá þau öryggisfræðslu og taka þátt í hópefli og leikjum.