Mjölnisholt fær mannvænni ásýnd

Borgarhönnun Borgarlínan

Framkvæmdir í Mjölnisholti eru nauðsynlegar vegna Borgarlínu.
Auð gata og hús. Nokkrum bílum lagt við götuna.

Reykjavíkurborg og Veitur fara í framkvæmdir í Mjölnisholti í vor með áherslu á að gera svæðið mannvænna og skemmtilegra. Markmið hönnunarinnar er að skapa fallegri ásýnd götunnar með vistlegra umhverfi, hægari akstri og bættu umferðaröryggi.  Einnig verður meira rými fyrir virka ferðamáta, eins og gangandi og hjólandi. Svæðið verður gróðursælla og lögð áhersla á fallega lýsingu.

Nauðsynlegar framkvæmdir vegna Borgarlínu

Framkvæmdirnar eru nauðsynlegar vegna þess að það þarf að breyta Mjölnisholti úr einstefnugötu í tvístefnugötu vegna breytinga í tengslum við leið Borgarlínu í gegnum Hlemm.

Með breytingunum skapast aðgengi fyrir íbúa við Skúlagarðsreit handan Laugavegs í gegnum Mjölnisholtið en á þessum hluta Laugavegs við Hlemm verður sér akrein fyrir Borgarlínu.

Framkvæmdirnar eru í takt við samþykkt deiliskipulag Hlemms og nágrennis. Meginmarkmið þess er að skapa gott umhverfi á Hlemmi, sem mun gegna enn stærra hlutverki fyrir mannlíf og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Framkvæmdin við Mjölnisholt er þriðji framkvæmdaráfangi Hlemmsvæðisins.

Áhersla á gróður

Veruleg aukning verður á gróðri á svæðinu með blágrænum ofanvatnslausnum að hluta og einnig gróðurveggi, sem er nýjung við hönnun gatna. Unnið er að samningi við húsfélagið Ásholti 2 um gróðurvegginn. Eitt af markmiðum blágrænna ofanvatnslausna er að veita ofanvatni á sem náttúrulegastan hátt ofan í jarðveginn og minnka álag á fráveitukerfi og er það gert í þessu tilfelli með því að setja upp gróðurbeð.

Gatnamót við Stakkholt verða upphækkuð og heldur hækkunin áfram út að Laugavegi. Gatan verður hellulögð að hluta með rauðbrúnum tóni, sem veitir umhverfinu hlýju.

Betra og öruggara aðgengi

Aðgengi inn í íbúðarhúsnæði og bílakjallara verður bætt en hugað verður að öruggari aðkomu í bílakjallara. Gatan verður sett í plan, sem þýðir að aðgengi allra verður bætt með óhindruðum inngöngum í byggingar.

Framkvæmdin er í samvinnu við Veitur því einnig verður farið í lagnavinnu. Sett verður snjóbræðsla í gangstéttir, fráveitulagnir endurnýjaðar og sömuleiðis kaldavatnslögn. Einnig verður götulýsing endurnýjuð.

Framkvæmdin verður áfangaskipt. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í vor og að þeim ljúki á haustmánuðum. Íbúar í nágrenninu hafa verið upplýstir um framkvæmdirnar.