Mikill meirihluti jákvæður í garð göngugatna

Borgarhönnun Göngugötur

""

Mikill meirihluti Reykvíkinga er jákvæður í garð göngugatna í miðborginni og hefur ánægja með göngugötur aukist á milli ára. Jákvæðir eru fleiri en neikvæðir í öllum hverfum borgarinnar. Hátt í þriðjungur telur að göngugötusvæðið sé of lítið. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg.

69,3% borgarbúa er jákvæður gagnvart göngugötum sem er nærri tveimur prósentustigum meira en árið 2020 og nærri fimm prósentustigum meira en árið 2019 en þá var sambærileg tala 64,5%. Sem fyrr eru þau jákvæðust sem heimsækja göngugötur oftast en 86% þeirra sem fara um göngugötur vikulega eða oftar eru jákvæð í garð þeirra.

30,3% telja göngugötusvæðið of lítið

Í könnuninni í ár kemur í ljós að 30,3% finnst göngugötusvæðið of lítið, sem er tæpur þriðjungur þátttakenda. Þessi hópur fer töluvert stækkandi á milli ára en árið 2019 var þessi tala 19,3% og 2020 var hún 23,6%.

Sem fyrr eru fleiri jákvæðir en neikvæðir í garð göngugatna í öllum hverfum borgarinnar.

Alls telur mikill meirihluti, eða 70,9%, göngugötur hafa mjög jákvæð eða fremur jákvæð áhrif á mannlíf miðborgarinnar. Tæpur helmingur telur göngugötur hafa jákvæð áhrif á verslun í miðborginni og tveir af hverjum þremur telja þær hafa jákvæð áhrif á veitinga- og matsölustaði í miðborginni.

Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu dagana 13. - 26. ágúst 2021. Svarendur eru 18 ára og eldri úr öllum hverfum Reykjavíkurborgar.

Skoða niðurstöðurnar í heild sinni.

Frétt um Maskínukönnun 2020