Metnaðarfullar hugmyndir að uppbyggingu við Krossmýrartorg á Ártúnshöfða
Hugmyndir úr alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um hönnun á nútíma skrifstofuhúsnæði, fjölnota samkomuhúsi og Krossmýrartorgi voru kynntar á fundinum Athafnaborgin 2023, sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur nýverið. Alls sóttu 18 stofur og teymi frá öllum Norðurlöndunum um þátttöku.
Halldór Eyjólfsson þróunarstjóri Klasa kynnti val dómnefndar með myndrænum hætti og má sjá það í í upptöku frá fundinum í spilaranum hér fyrir neðan. Dómnefnd valdi tvær tillögur til að vinna nánar með.„Þetta voru það sterkar tillögur og við ætlum að gefa okkur betri tíma til að máta þær við okkar forsendur,“ sagði Halldór. Stofurnar sem dómnefnd valdi eru annars vegar Henning Larsen Arkitektar og hins vegar samsett teymi frá Hille Melby Arkitektum ásamt Sen & Son.
Uppbygging á Ártúnshöfða er hafin
Halldór hefur verið viðriðinn uppbyggingarhugmyndir á Ártúnshöfða um margra ára skeið og þegar hann fór yfir kosti svæðisins til íbúðabyggðar minnti hann á að uppbygging á Ártúnshöfða væri þegar hafin. „Við erum að fara að umbreyta þessu svæði sem flest okkar þekkja sem iðnaðarsvæði eða bílasölur, en sú tíð er senn á enda,“ sagði hann. „Það átta sig ekki allir á því að verkefnið er komið á fleygiferð. Þarna eru fyrstu íbúðareitirnir komnir í byggingu og fleiri á leiðinni og að óbreyttu verða þarna nokkuð hundruð íbúðir komnar í uppbyggingu þegar á þessu ári,“ sagði Halldór.