Menningarnótt 2024 – afmælis- og borgarhátíð Reykjavíkur
Menningarnótt í Reykjavík verður haldin laugardaginn 24. ágúst 2024. Segja má að hátíðin sé hápunktur sumarsins þar sem hátt í 400 skemmtilegir viðburðir lita mannlífið í miðborginni frá morgni til kvölds og verður af nógu að taka. Bílskúrsbönd í Iðnó, flutningur á þremur heilum óperum og spunamaraþon í Þjóðleikhúsinu, Listahátíð í tilefni af 50 ára höfundarafmæli Þórarins Eldjárn, karnival í Bergstaðastræti og utandyramót í bekkpressu eru meðal nýjunga þetta árið. Gestir munu líka geta treyst á marga gamla góða vini svo sem lúðrasveitabardagann, tónleika, gjörninga og listsýningar um alla borg. Hátíðahöldunum lýkur svo með flugeldasýningu klukkan 23:00.
Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar en 18. ágúst síðastliðin voru 238 ár frá því að Reykjavík fékk kaupstaðaréttindi.
Á hátíðinni er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður lokað fyrir umferð bifreiða frá klukkan 7:00 að morgni til 1:00 eftir miðnætti. Setning Menningarnætur fer fram í Hjartagarðinum klukkan 12:00. Einar Þorsteinsson borgarstjóri setur hátíðina. Listhópur Reykjavíkur, sviðslistahópurinn Óður mun flytja óperuaríu og rapparinn Cell7 stígur á stokk.
Allir viðburðir á þessari langstærstu menningarhátíð Íslands eru gestum að kostnaðarlausu.
Efnt verður til listahátíðar í garðinum við heimili Þórarins Eldjárns rithöfundar í tilefni af 50 ára höfundarafmæli hans. Í boði verður Uppistand, ljóðaupplestur og fluttar verða nýútkomnar Dótarímur Þórarins Eldjárns.
Bílskúrshljómsveitir lýðveldisins koma út úr skúrum landsins á Menningarnótt 2024 og leika bara allskonar, pönk, popp, rokk og blús. Líf og fjör - rokk og ról - í Iðnó!
Kramber og Kramhúsið bjóða í allsherjar dans og tónlistarveislu á Menningarnótt. Úti á götu verða plötusnúðar, dansatriði og danskennsla í sönnum miðborgaranda, Flóamarkaður á vegum Góða Hirðisins verður á Bergstöðum frá 13:00 -18:00. Þegar nær dregur kvöldi tekur við þétt dagskrá þekktra og áður óþekktra plötusnúða sem halda stemmningunni uppi til klukkan 23:00.
Kvennakór Benna Hemm Hemm í Safnahúsinu
Benni Hemm Hemm & Kórinn slógu í gegn í Tjarnarbíói í byrjun árs með verkinu Ljósið & ruslið, þar sem uppselt var á allar sýningar. Á tónleikunum á Menningarnótt verður hægt að hlýða á lög sem hafa aldrei verið flutt fyrr í bland við helstu slagara Kórsins.
Þrenningarnótt - þrjár óperur á einum degi - Þjóðleikhúskjallarinn
Sviðslistahópurinn Óður, sem er Listhópur Reykjavíkur 2024, heldur gamanóperumaraþon í Þjóðleikhúskjallaranum. Óður hefur farið sem stormsveipur um óperulandslagið á Íslandi frá því 2021 og hafa gamanóperur þeirra, Ástardrykkurinn, Don Pasquale og Póst-Jón, trekkt að fólk úr öllum áttum, jafnt gallharða óperuunnendur sem og þau sem aldrei hafa séð óperu fyrr. Í von um að áhorfendur skilji um hvað þau eru að syngja þýða þau óperurnar yfir á íslensku og flytja þær mun nær áhorfendum en mörgum þykir eðlilegt.
Spunamaraþon á stóra sviðinu! - Improv Ísland
Spunamaraþon Improv Ísland hefur verið ómissandi hluti af Menningarnótt allt frá árinu 2014. Boðið verður upp á brakandi ferska spunasýningu á hálftíma fresti frá 15:00 til 22:00. Maraþonið hefur alltaf vakið mikla lukku og hafa færri komist að en vilja. Í ljósi þessa gríðarlega áhorfendafjölda hefur náðst samkomulag við Þjóðleikhúsið um að hafa spunamaraþonið á stóra sviðinu í ár.
Menningarnæturmót í bekkpressu - Kraftlyftingadeild Ármanns
Kraftlyftingadeild Ármanns uppfyllir gamlan draum um að halda bekkpressumót utandyra í miðborg Reykjavíkur. Mótið er fyrir karla og konur á ólíkum aldri.
Menningarnæturtónleikar á KEX - Kex Hostel
KEX Hostel heldur glæsilega útitónleika í portinu þar sem að grasrót reykvískar tónlistarsenu verður fagnað.
Allar skrúðgönguleiðir liggja að Hörputorgi
Í fyrsta sinn sameinast Lúðrasveit Reykjavíkur, Lúðrasveitin Svanurinn og Lúðrasveit Verkalýðsins í skrúðgöngu í höfuðborginni. Yfir hundrað lúðrablásarar marsera frá þremur stöðum; Hafnarstræti, Austurvelli og Lækjartorgi, sameinast á Kolagötu og þramma í gegnum Reykjastræti yfir á Hörputorg. Harpa, Landsbankinn og Hafnartorg standa saman að sannkallaðri karnival stemningu á Hörputorgi og nærumhverfi í tilefni þess að torgið er nú loks tilbúið í sinni endanlegu mynd.
Lúðrasveitabardagi á Hörputorgi
Hinn árlegi leðjuslagur lúðrasveita fer fram á Menningarnótt. Þar er barist til síðasta tóns og íþróttamannsleg framkoma er ekki það sem skapar sóknarfæri. Mútur, svik, svindl, frændhygli og prettir eru það sem gildir í þessari keppni. Þetta er sjónarspil sem kraftur er í en stuðið er framar öllu. Lúðrasveitin Svanur, Lúðrasveit Verkalýðsins og Lúðrasveit Reykjavíkur takast þarna á og engin grið gefin.
Hinsegin ljóð brjótast inn í hljóðkerfi nokkurra bara og skemmtistaða í Reykjavík. Viðburðurinn er í samstarfi við alþjóðlegu bókmenntahátíðina Queer Situations.
Þetta er aðeins brot af þeim fjölbreyttu viðburðum sem í boði verða og nálgast má allar upplýsingar um dagskrá Menningarnætur á heimasíðu.
Götulokanir á Menningarnótt
Á Menningarnótt er miðborgin ein allsherjar göngugata og verður lokað fyrir umferð bifreiða frá kl. 7:00 að morgni til 1:00 eftir miðnætti. Lokunin tryggir öryggi gangandi og akandi vegfarenda á þessum fjölsóttasta hátíðardegi ársins. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að komast á hátíðasvæðið.
Hugað er að aðgengi fyrir fatlað fólk, gott aðgengi að bílastæðum víðs vegar í miðborginni, hjólastólapallar fyrir framan svið á Arnarhóli og Hljómskálagarði, skynrými fyrir fólk með skynúrvinnsluvanda og Pant akstursþjónusta fatlaðs fólks aka í miðborgina.
Þeim sem þurfa að koma á einkabíl er bent á að nota bílastæði við Borgartún og í Laugardalnum þar sem ókeypis skutlur aka fólki til og frá hátíðarsvæðinu frá kl. 7:00 til 00:30. Eins og lög gera ráð fyrir verður sektað fyrir ólöglegar bifreiðastöður og þeir bílar sem hindra aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs verða dregnir í burtu svo unnt sé að tryggja aðgengi þessara öryggisaðila ef óhapp ber að.
Kort yfir hátíðasvæði Menningarnætur
Strætó
Frítt í Strætóskutlur
„Skutlur“ á vegum Strætó í boði Reykjavíkurborgar munu aka milli Laugardalshallar og Hallgrímskirkju milli kl. 07:30 – 00:30. Frítt er í skutlurnar.
Borga þarf almennt fargjald í strætó yfir daginn og aukin tíðni ferða verður á meðan hátíðardagskráin er í gangi. Hægt verður að sjá biðstöðvar sem stoppað verður á í tímatöflu allra leiða á heimasíðu straeto.is. Leiðarvísirinn verður uppfærður og þannig hægt að skoða tímatöflur og ferðir yfir daginn.
Að hátið lokinni
Leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu verður rofið kl. 22:30 og öllum tiltækum vögnum verður beint að Sæbraut við Sólfarið. Frá Sólfarinu verður ekið í öll hverfi á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 23:00- 00:30. Frítt verður í þessar ferðir.
Borga þarf næturgjald í næturstrætó sem tekur við um klukkan 1:00 en handhafar mánaðar- og árskorta geta notað kortin sín um borð í næturstrætó.
Rafskútur
Fólk er eindregið hvatt til að nýta sér rafskútur sem eru vistvænn samgöngumáti til að komast til og frá miðborginni á Menningarnótt.
Í samráði við rafskútufyrirtækin verður hámarkshraði rafskútnanna lækkaður í miðborginni á Menningarnótt, auk þess sem aðeins verður hægt að hefja og enda ferðir á ákveðnum stæðum í miðborginni.
Hægt er að nálgast kort yfir götulokanir á vefsíðu Menningarnætur, menningarnott.is
Hægt er að nálgast upplýsingar um hátíðina, götulokanir og annað í símaveri Reykjavíkurborgar frá kl. 8:00 – 23:00 á Menningarnótt, sími: 411-1111.
Fjölskyldan saman
Dagskráin er gestum að kostnaðarlausu og þar með séð til þess að allir gestir geti notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru.
Verið hjartanlega velkomin á afmælishátíð Reykjavíkurborgar.
Hátíðin hefst kl 12:00 og lýkur með flugeldasýningu hjá Arnarhóli kl 23:00.
Verum samferða heim.