Lífsgæðakjarnar - uppbygging húsnæðis í þágu eldri borgara
Tjarnarsalur ráðhúss Reykjavíkur var þéttsetinn á kynningarfundi í gær um lífsgæðakjarna og einnig fylgdust margir með streymi frá fundinum. Til fundarins var boðið til að ræða með opnum hætti stöðuna í húsnæðismálum eldra fólks og fá innblástur og hugmyndir um hvernig eldra fólk vill búa. Þá voru kynntar nokkrar af þeim hugmyndum sem bárust frá uppbyggingaraðilum eftir kall Reykjavíkurborgar um samstarf sem auglýst var á liðnu vori. Upptaka er nú aðgengilegt á vefsíðu fundarins og þar er einnig hægt að skoða kynningar fyrirlesara. Skoða vefsíðu Lífsgæðakjarnar framtíðarinnar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð til fundarins og bar erindi hans yfirskriftina Lífsgæðakjarnar - umfangsmikil uppbygging húsnæðis í þágu eldri borgara í Reykjavík. Hann sagði að með fundinum væri verið að opna samtal um eðli og inntak hugtaksins „lífsgæðakjarnar“. Skoða þyrfti hvernig uppbygging yrði best skipulögð, hvaða áherslur eigi að leggja og hvað ætti að forðast. Mikilvægt væri að hlusta á skoðanir eldri borgara og taka mið af reynslu annarra þjóða. Eldra fólk væri fyrst og fremst fólk með fjölbreyttar og ólíkar þarfir.
1.100 íbúðir fyrir eldri borgara
Í erindi Dags kom fram að á næstu 10 árum gerir borgin ráð fyrir að úthluta lóðum undir 1.100 íbúðir fyrir eldri borgara. Þörfin fyrir slíkt húsnæði er vaxandi en stórir árgangar færast á þriðja æviskeiðið á komandi árum. Á undanförnum árum hafa 465 hjúkrunarrými og íbúðir fyrir aldraða opnað í Reykjavík. Dagur fór yfir þau verkefni sem lokið hefur verið á undanförnum árum og eru í gangi í dag. Skoða kynningarglærur borgarstjóra. Einnig má hér horfa á upptöku með erindi borgarstjóra.
Í dag búa um 89% eldri borgara í eigin húsnæði og sá hópur skuldar að meðaltali lítið. Dagur benti á að mögulegt væri að mörg í þessum hópi búi í óhentugu húsnæði og séu að hugsa sér til hreyfings. Einnig ykist almennt þörf fólks fyrir þjónustu með hækkandi aldri, sérstaklega eftir áttrætt. Hann hvatti þróunaraðila á húsnæðismarkaði til að huga að öllum þessum þáttum.
Mikill áhugi fyrir samstarfi um Lífsgæðakjarna
Reykjavíkurborg auglýsti á liðnu vori eftir samstarfsaðilum og hugmyndum tengdum lífsgæðakjörnum. Viðbrögð voru góð og bárust 23 svör. Unnið verður áfram í samskiptum við þessa aðila. Hluti erinda voru hugmyndir sem tengdust verkefninu, ýmis samtök og stofnanir lýstu áhuga á samstarfi og einnig bárust allnokkur erindi frá lóðarhöfum sem vilja byggja upp í anda hugmynda um lífsgæðakjarna á sínum lóðum. Fimm þeirra voru með kynningu á fundinum.
Dagur upplýsti að í borgarráði myndi verða lögð fram tillaga um að ganga til samstarfs við þá lóðarhafa sem skoruðu hæst í matslíkani sem lagt var til grundvallar. Lífsgæðakjarnarnir eru vel staðsettir í borginni miðað við þróunarsvæði og tengingu við samgöngur. Nánar má sjá í erindi borgarstjóra og kynningum uppbyggingaraðila.
Tengt efni:
- Lífsgæðakjarnar framtíðarinnar – kynningarfundur haldinn 27. september 2023
- Skoða kynningarglærur borgarstjóra
- Upptaka með erindi borgarstjóra