Líflegar umræður á opnum fundum borgarstjóra í Árbæ og Háaleiti/Bústöðum

Einar Þorsteinsson ræðir við íbúa í Háaleiti og Bústaðahverfi
Einar Þorsteinsson ræðir málin við fólk á íbúafundi

Einar Þorsteinsson borgarstjóri tekur gott veganesti með sér inn í umræður um fjölbreytt hagsmunamál íbúa frá vel sóttum opnum fundum í Árbæjarhverfi og Háaleiti Bústöðum í dag.

Meðal fyrstu verkefna Einars Þorsteinssonar sem borgarstjóra er að bjóða til opins samtals í hverfum borgarinnar þar sem fólki er boðið að ræða það sem vel er gert og koma á framfæri því sem betur mætti fara. 

Líflegar umræður um hverfin sem fólki er annt um

Segja má að í báðum hverfum hafi fólk verið sammála um að hverfið sitt væri það besta í borginni, en á báðum stöðum voru líka margar hugmyndir um hvað mætti gera til að bæta hverfið enn frekar.

Í Árbænum er greinilegt að nálægðin við náttúruna skiptir íbúa miklu máli, sér í lagi tengslin við Elliðaárdalinn. Þá ræddu fundargestir kosti þess að stutt er í alla þjónustu og lýstu ánægju með öflugt íþróttastarf. Það er ekki ólíkt því sem hæst bar í Háaleiti og Bústöðum þar sem talað var um gott aðgengi í ýmsa þjónustu, frábært íþróttastarf og nálægð við góða göngu- og hjólastíga og náttúru. Í Réttarholtsskóla var einnig talað um góða nágrannasamheldni og í Árbænum um vel heppnaða þéttingu byggðar. 

Einar Þorsteinsson hlustar á fólk á fundi

Skólastarfið í báðum hverfum fékk mikið hrós, og var sérstaklega nefnt gróskumikið starf í Árbæjarskóla og Réttarholtsskóla, og þá var einnig talað vel um faglegt leikskólastarf í Fossvoginum. Húsnæðismál skóla voru þá einnig til umræðu og viðhaldsmál og áhrifin á starf í grunn- og leikskólum í hverfunum tekin fyrir. Einn fundargestur í Réttarholtsskóla vildi þó taka fram mikla ánægju með húsnæði Ævintýraborgar í Vogahverfinu og sagðist vildi sjá meira af þess háttar byggingum.

Margir íbúar sögðust vilja sjá meiri kaffi- og eða veitingahúsarekstur í nágrenni við heimilin sín og var spurt hvað borgin gæti gert til að liðka fyrir með það.

Íþróttafélög gjarnan hjartað í hverfinu

Einar spjallar við nokkra gesti á opnum íbúafundi

Mjög jákvæð og uppbyggjandi umræða var um íþróttastarf í hverfunum og það mikilvæga starf sem er unnið af Víkingi og Fylki. Fólk telur að enn betur megi búa að íþróttastarfinu og var rætt um aðgerðir til að auka þátttöku barna af erlendum uppruna. Á fundinum kom fram að nýr frístundatengill hafi tekið til starfa í Austurmiðstöð og rætt var um ýmsar leiðir til að auka og auðvelda þátttöku þessa hóps í íþróttastarfi. 

Alls staðar þar sem haldnir hafa verið íbúafundir eru uppi hugmyndir um frekari uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og greinilegt að metnaðarfullt starf íþróttafélaganna á sér mikið af stuðningsfólki.

Mikilvægt að heyra hvað brennur á íbúum

Ítarlegar fundargerðir eru haldnar um þessa opnu fundi og skýrslur verða sendar íbúaráðum til frekari umfjöllunar. „Það er mjög mikilvægt fyrir mig að koma að hitta ykkur og heyra hvað brennur helst á íbúum,“ sagði borgarstjóri í lok fundarins í Réttarholtsskóla nú síðdegis og sagðist ætla að taka þessar umræður og athugasemdir sem koma fram á fundunum með sér inn í vinnu næstu missera. 

Næstu íbúafundir verða:

  • Grafarholt og Úlfarsárdalur | laugardaginn 2. mars 2024, kl. 11:00  
  • Kjalarnes | laugardaginn 2. mars 2024, kl. 14:00
  • Hlíðar | laugardaginn 16. mars 2024, kl. 11:00  
  • Laugardalur | laugardaginn 16. mars 2024, kl. 14:00
  • Vesturbær | laugardaginn 6. apríl 2024, kl. 11:00 
  • Miðborg | laugardaginn 6. apríl 2024, kl. 14:00