Leikskólastjórar ræða aðgerðaráætlun í leikskólamálum

Skóli og frístund

""

Leikskólastjórar í borginni funduðu með Skúla Helgasyni, formanni skóla- og frístundaráðs, í morgun og ræddu nýja aðgerðaráætlun í leikskólamálum. 

Aðgerðaráætlunin sem kynnt var í dag byggir annars vegar á tillögum starfshóps um það verkefni að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla sem borgarstjóri skipaði á vordögum 2016 og hins vegar á tillögum starfshóps um nýliðun og bætt umhverfi í leikskólunum. Aðgerðir sem byggja á tillögum fyrrnefnda hópsins felast m.a. í því að fjölga ungbarnadeildum úr sjö í fjórtán í haust, fjölga leikskólaplássum um á annað hundrað á næstu mánuðum og að byggja allt að 6 nýja leikskóla á næstu árum. 

Umræður á fundi leikskólastjóra snerust hins vegar mest um þær tillögur sem snúa að nýliðun og betra vinnuumhverfi á leikskólum borgarinnar, en þær komu fram í skýrslu síðarnefnda starfshópsins í liðinni viku. Sjá frétt þar um.  

Í aðgerðaráætluninni sem kynnt var í morgun er m.a. lögð áhersla á aukið rými barna í leikskólum, fjölgun starfsfólks á elstu deildum, aukinn undirbúningstíma, átak í ráðningum og fjölgun leikskólakennara og annars fagfólks, fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, aðgerðir til að efla móttöku nýliða m.a. með leiðsagnarkennurum og handleiðslu, ímyndarvinnu og kynningu á störfum á leikskólum. Leikskólakennarar ræddu aðrar tillögur starfshópsins og verður unnið úr ábendingum þeirra og hugmyndum að útfærslu þeirra.  

Sumarstörf í leikskólum

Meðal þess sem samþykkt var í borgarráði í dag og felst í aðgerðaráætluninni er að ráða ungt fólk í sumarstörf á leikskólum til að vekja áhuga þess á leikskólum sem eftirsóknarverðum starfsvettvangi.  Annars vegar verður um að ræða störf fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á að fara í háskólanám á uppeldis- og menntunarsviði að loknu stúdentsprófi t.d. kennaradeild, íþrótta,- tómstunda- og þroskaþjálfadeild og uppeldis- og menntunarfræðideild og hins vegar sumarstörf fyrir ungt fólk á 17. aldursári.

Sumarstörf í leikskólum bjóðast annars vegar ungu fólki sem hafa lokið framhaldsskólanámi og hafa áhuga á námi á kennslu- og uppeldissviði, og hins vegar ungmennum sem náð hafa 17 ára aldri. Um er að ræða um 60 störf sem skiptast á milli þessara tveggja hópa og er gert ráð fyrir 10 vikna starfstíma.  Viðbótarfjármagn vegna þessara starfa verður um 59 milljónir króna.

Sjá frétt um aðgerðaráætlun í leikskólamálum.