Víðtækar aðgerðir í leikskólamálum

Skóli og frístund Velferð

""
  • Ungbarnadeildum fjölgað um helming í haust
  • Leikskólaplássum fjölgað um 750-800
  • 5-6 nýir leikskólar byggðir á næstu árum á uppbyggingarsvæðum
  • Bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla brúað í borginni
  • Fjárveitingar vegna þessara aðgerða eru 632 milljónir á þessu ári og1.100 milljónir árið 2019 í nýjar fjárfestingar og rekstur

Reykjavíkurborg hyggst brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla á næstu árum samkvæmt aðgerðaáætlun sem kynnt var í borgarráði í morgun. Til þess þarf að fjölga leikskólaplássum um 750-800.

Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö nýjum ungbarnadeildum verði komið upp næsta haust auk þess sem fimm til sex nýir leikskólar verði byggðir á næstu árum. Þá verður gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta aðstöðu á leikskólum og vinnuumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks.

Tillögur um uppbyggingu leikskólanna byggja á vinnu starfshóps um verkefnið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem borgarstjóri skipaði á vordögum 2016.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir mikilvægt að geta lagt fram þessa áætlun sem nær bæði til skamms tíma og langs tíma. “Það má kannski segja að með þessu plani séum við að klára leikskólamálin sem er verkefni sem R-listinn hóf með leikskólabyltingunni á tíunda áratugnum. Á tímabilinu 1994-2002, á aðeins tveimur kjörtímabilum, fór fjöldi barna í heilsdagsvistun úr 30% árið 1994 í 80% árið 2002. Til að gefa öllum börnum kost á leikskólavistun nú þurfum við að sjálfsögðu að fjölga starfsfólki á leikskólunum á næstu árum og við sjáum að það er vel hægt. Til dæmis höfum við undanfarið hálft ár fjölgað stöðugildum um 110 á leikskólum borgarinnar. Samhliða því að samþykkja uppbyggingaráætlun í leikskólamálum erum við að samþykkja margþætta áætlun til að efla mannauðinn og bæta starfsaðstæðurnar í leikskólunum, bæði fyrir starfsfólk en ekki síður fyrir börnin. Þær tillögur hafa verið unnar í samráði við Félag leikskólakennara sem ég er mjög þakklátur fyrir,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Aðgerðirnar eru sundurliðaðar eftir borgarhlutum og taka mið af áformum um þéttingu byggðar, ný hverfi og spám sem fyrir liggja um væntanlegan barnafjölda í hverfunum.

Til að hægt sé að bjóða öllum 12 mánaða börnum og eldri leikskólaþjónustu á vegum borgarinnar er gert ráð fyrir að fjölga þurfi plássum um 750-800 á næstu sex árum.

Fimm til sex nýir leikskólar

Stefna skóla- og frístundasviðs um æskilega stærð leikskóla kallar á byggingu fimm til sex nýrra leikskóla í borginni. Því er lagt til að nýir leikskólar rísi í Úlfarsárdal, Vatnsmýri, Laugardal, Háaleiti, Vogabyggð og í Miðborginni.

Á árunum 2022-2026 er síðan gert ráð fyrir að nýir leikskólar muni rísa í nýjum hverfum borgarinnar þar sem þörf krefur; einkum Bryggjuhverfi, Ártúnshöfða, Skerjafirði og Vogabyggð III-IV.

14 ungbarnadeildir á leikskólum

Síðastliðið haust voru teknar í notkun sjö sérhæfðar ungbarnadeildir við fjóra leikskóla í borginni. Þær eru í Breiðholti, Árbæ, Laugardal og Miðborg og hafa sérstaka aðstöðu og leikrými sem hentar börnum á öðru aldursári.

Næsta haust verður ráðist í næsta áfanga með opnun sjö ungbarnadeilda til viðbótar við leikskóla í Vesturbæ, Grafarvogi, Grafarholti og Hlíðahverfi. Þar með verða ungbarnadeildir starfandi í öllum borgarhlutum.

Þessum ungbarnadeildum verður heimilt að hefja inntöku barna yngri en 18 mánaða og er miðað við að í haust hefjist inntaka barna á ungbarnadeildir sem fædd eru í maí 2017, þ.e. barna sem verða 16 mánaða og eldri í september.

Rétt er að árétta að inntaka yngstu barnanna verður háð fjölda lausra plássa á viðkomandi leikskóla, stöðu starfsmannamála og samsetningu biðlista.

Nýjar leikskóladeildir strax í haust

Lagt er til að opnaðar verða nýjar leikskóladeildir við leikskóla í þeim hverfum þar sem eftirspurn eftir leikskólaplássum er mest. Gert er ráð fyrir að þær leikskóladeildir verði m.a. í: Seljahverfi, Háaleiti, Fossvogi, Laugardal og Grafarholti. Þær aðgerðir munu fjölga leikskólaplássum um 110-126 á næstu sjö mánuðum.

Á næstu tveimur árum verður plássum fjölgað enn frekar með viðbyggingum og endurbótum á húsnæði.

Aðgerðir til að bæta vinnuumhverfið

Aðgerðirnar sem kynntar voru í borgarráði í morgun fela enn fremur í sér að gripið er til margvíslegra aðgerða til að bæta vinnuumhverfi á leikskólum borgarinnar. Þær byggja á tillögum starfshóps skóla- og frístundaráðs um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara sem skilaði niðurstöðum í síðustu viku. Þar er m.a. lögð áhersla á aukið rými barna, fjölgun starfsfólks á elstu deildum, aukinn undirbúningstíma, fjölgun leikskólakennara og annars fagfólks, fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, aðgerðir til að efla móttöku nýliða m.a. með leiðsagnarkennurum og handleiðslu, ímyndarvinnu og kynningu á störfum á leikskólum.

Loks var samþykkt í borgarráði í dag tillaga um að auglýst verði 60 sumarstörf á leikskólum fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á námi í kennslu- og uppeldisfræðum. Markmiðið er að kveikja áhuga ungs fólks á því að starfa á leikskólum og leggja stund á nám í leikskólakennarafræðum.

Kynning á aðgerðum í leikskólamálum

Sjá frétt um fund leikskólastjóra um aðgerðaráætlunina og leiðir til að bæta starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar og fjölga fagmenntuðu fólki.