Arkitektar frá FOJAB kynna vinningstillögu sína um Keldnaland miðvikudaginn 25. september klukkan 17 á Borgarbókasafninu í Spönginni. Á safninu stendur yfir sýning á tillögunni, Crafting Keldur, sem hlaut langflest stig í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands sem Reykjavíkurborg og Betri samgöngur stóðu fyrir.
FOJAB er ein af fremstu arkitektastofum Svíþjóðar og er þekkt fyrir framsækna nálgun sína í borgarþróun og sjálfbærri hönnun. Stofan, sem var stofnuð árið 1971, hefur vaxið í að vera hópur um það bil 150 sérfræðinga með starfsemi í Malmö, Stokkhólmi, Gautaborg og Helsingborg.
Af hálfu FOJAB leiðir Magdalena Hedman, landslagsarkitekt LAR/MSA, Keldnalandsverkefnið en hún er jafnframt yfir borgarþróun hjá stofunni. Aðrir í teyminu eru Joanna Attvall, arkitekt SAR/MSA og gæðastjóri umhverfismála, Åsa Samuelsson, arkitekt SAR/MSA og yfirmaður FOJABlab og Josephine Philipsen, landslagsarkitekt.
Keldnaland verður þétt, fjölbreytt og grænt borgarhverfi sem nýtur góðs af nálægð við náttúruna, góðum almenningssamgöngum og áherslu á fjölbreytta ferðamáta. Borgarlínan mun fara um svæðið sem þýðir fleiri valkosti fyrir íbúa með auknum lífsgæðum og góðri þjónustu. Íbúar eiga að geta lifað sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi með vistvænum samgöngum, grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum en markmiðið er lifandi borgarumhverfi.
Keldnaland er byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna.
Verið öll hjartanlega velkomin á fyrirlesturinn á miðvikudaginn! Athugið að fyrirlesturinn fer fram á ensku. Vekjum einnig athygli á því að sýningin er opin til 17. október á hefðbundum opnunartíma safnins.