Laun í Vinnuskólanum hækkuð

Umhverfi

Skráning er hafin í Vinnuskólann fyrir sumarið. Mynd/Róbert Reynisson
Krakkar að störfum í Vinnuskóla Reykjavíkur

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í morgun, miðvikudag 10. apríl, að hækka laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2024. Hækkunin á tímakaupi nemur um 7,9%. Enn fremur verða laun nemenda fest við ákveðinn launaflokk og munu í framtíðinni fylgja hækkunum á honum.

Tillagan um hækkunina var lögð fyrir með fyrirvara um samþykki borgarráðs um aukafjárveitingu.

  • Tímakaup nemenda úr 8. bekk hækkar úr 711 kr. í 766,5 kr.   
  • Tímakaup nemenda úr 9. bekk hækkar úr 947 kr. í 1.022 kr.   
  • Tímakaup nemenda úr 10. bekk hækkar úr 1.184 kr. í 1.277,5 kr.   

Launin verða fest við launaflokk 217, sem er grunnlaunaflokkur í kjarasamningi Sameykis og Reykjavíkurborgar, dagvinnukaup 2.555 krónur á klukkustund. Nemendur í 8. bekk fá framvegis greidd 30% af launaflokki 217, nemendur í 9. bekk 40% og nemendur í 10. bekk 50% af launaflokkinum.

Í fjárhagsáætlun eru rúmlega 268 milljónir á launalið nemenda en með hækkun launataxta og áætlaðan fjölda nemenda fyrir sumarið 2024, 3.000 nemendur, þarf að sækja um hækkun á launalið um 21 milljón.  

Hækkanirnar fylgja sömu aðferðafræði og notast er við í fleiri sveitarfélögum. Með þessum hætti verða laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur sambærileg við laun í flestum vinnuskólum höfuðborgarsvæðisins. 

Skráning er hafin 

Skráning er hafin í Vinnuskólann fyrir sumarið í gegnum nýtt rafrænt skráningarkerfi. Allir nemendur sem sækja um í 8., 9. og 10. bekk fá vinnu. Nemendum í 8. bekk býðst vinna í 3,5 tíma á dag á meðan nemendur í 9. og 10. bekk fá vinnu í 7 tíma á dag í 15 vinnudaga.