Kynin í borginni- kyngreind tölfræði á aðgengilegu formi

Mannréttindi

Ragnar Th. Sigurðsson
Þrjár manneskjur sitja á bekk, snúa baki í áhorfanda. Eru við sjóinn, umkringd grasi, gott veður, líklega sumarnótt.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur hefur gefið út rafrænan bækling með fjölbreyttri kyngreindri tölfræði um fólkið í borginni og í sumum tilfellum á landinu öllu. Um er að ræða mikið magn áhugaverðra upplýsinga á aðgengilegu formi og er öllum frjálst að nýta sér þær. Gert er ráð fyrir að efnið verði uppfært árlega.

Söfnun og greining upplýsinga um stöðu kynjanna og annarra hópa í samfélaginu er hornsteinn að markvissu jafnréttisstarfi og því mikilvægur þáttur í framkvæmd kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar og alls jafnréttisstarfs. Jafnrétti og mannréttindi eru leiðarljós í öllu starfi borgarinnar og ekki er sama hvernig nærþjónustu við íbúa hennar er háttað. Þá skiptir miklu máli fyrir kynin með hvaða hætti borgin ráðstafar tekjum sínum. Þar á jafnrétti að vera markmiðið og byggja þarf á jafnréttissjónarmiðum við allar stærri ákvarðanir um fjárútlát. Kyngreind gögn hjálpa til við að varpa ljósi á ólíka stöðu og þarfir fólks og koma auga á áskoranir og tækifæri og á bæklingurinn að auðvelda fólki að nálgast kyngreindar tölur sem styðja við markvissa ákvarðanatöku.

Ýmis dæmi um áhugaverðar upplýsingar

Upplýsingarnar í rafræna bæklingnum eru settar fram á myndrænan og aðgengilegan hátt og hægt er að skoða þær eftir flokkum, til dæmis upplýsingar um mannfjölda, menntun, vinnumarkað, fjárhag, ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf, samgöngur og ofbeldi. Stuðst er við fyrirliggjandi gögn t.d. frá Hagstofunni og borginni, ásamt niðurstöðum rannsókna. Hér á eftir fylgja nokkur dæmi um staðreyndir úr bæklingnum en við hvetjum öll áhugasöm til að skoða hann og nýta sér efni hans.

  • Reykjavík er fjölmenningarborg og samsetning íbúa hefur breyst mikið. Til dæmis fór fjöldi innflytjenda úr 11% af íbúum árið 2013 í 25% árið 2023.
  • Skráðum kynsegin einstaklingum fjölgaði um 75% á árinu 2022.
  • Konur eru 82% þeirra sem brautskrást úr námi tengdu heilbrigði, velferð og menntun, en karlar 57% þeirra sem brautskrást úr námi tengdu raunvísindum, stærðfræði, tölvunarfræði og verkfræði.
  • Atvinnuþátttaka kvenna er lægri en karla og konur eru líklegri til að vera í hlutastarfi. Konur af erlendum uppruna vinna lengri og óreglulegri vinnudaga en konur af íslenskum uppruna og upplifa ýmiss konar mismunun og fordóma á vinnumarkaði. Enn mælist kynbundinn launamunur á vinnumarkaði þrátt fyrir að konur séu í meirihluta útskrifaðra nemenda úr háskóla og var 15% munur á atvinnutekjum kvenna og karla í Reykjavík árið 2022.
  • Atvinnutekjur fólks í samkynja parasamböndum eru 18% lægri en atvinnutekjur fólks í gagnkynja parasamböndum.
  • Vegna ólíks lífshlaups kynjanna eiga konur almennt minni lífeyrissparnað á efri árum en karlar. Áhrifaþættir eru til dæmis minni launuð vinna, kynbundinn launamunur og meiri ábyrgð kvenna á fjölskyldu og heimili, til dæmis heimilisstörfum, barnauppeldi og umönnun veikra skyldmenna.
  • Konur lifa að meðaltali lengur en karlar en eiga færri ár við góða heilsu.
  • Áætlað er að kynbundið ofbeldi hafi kostað 45,8 milljarða króna árið 2021.
  • Þriðjungur kvenna á íslenskum vinnumarkaði hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað.
  • 59% fatlaðra kvenna hafa orðið fyrir kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu ofbeldi á lífsleiðinni.
  • 34% hinsegin ungmenna hafa oft heyrt niðrandi ummæli um hinsegin fólk í skólanum.
  • 45% stráka í 8. til 10. bekk taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi fjórum sinnum í viku eða oftar, en tæp 38% stelpna.
  • Karlar í Reykjavík hjóla meira en konur og eru líklegri til að nýta sér þjónustu deilihlaupahjólaleiga.

Rafrænn bæklingur með kyngreindri tölfræði.

Grafísk mynd, forsíða bæklings um kynin í borginni