Kanna áhuga fyrir auðlindanýtingu með hringrásargarði á Álfsnesi

Falleg loftmynd af Álfsnesi með Esjuna í bakgrunn.

Undirbúningi að uppbyggingu hringrásargarðs á Álfsnesi miðar áfram og nú hefur verið valið teymi til að fara ofan í saumana á fýsileika slíks iðnaðarvistkerfis á Álfsnesi. Teyminu er ætlað að koma með hugmyndir að framtíðaráformum svæðisins og hvernig skipulagi þess og aðgerðaáætlun geti verið háttað svo hringrásarferlar séu framkvæmanlegir á þessum skala.

Markmið slíkrar uppbyggingar er að draga úr urðun og mengun með því að líta á muni og efni sem fellur til hjá íbúum og fyrirtækjum sem auðlindir.

Verkefninu er skipt í eftirfarandi þrjá meginverkþætti:

  1. Greining auðlindastrauma og mögulegs iðnaðarvistkerfis.
  2. Samfélagsleg áhrif og ábati fyrir höfuðborgarsvæðið.
  3. Umsjón, fjármögnun og markaðssetning.

Teymið er samansett af fulltrúum frá ReSource International, M/Studio og Transition Labs þar sem hvert fyrirtæki leiðir einn framangreindra þriggja verkþátta í samræmi við sína sérhæfingu. Yfirumsjón og stjórn verkefnisins verður í höndum ReSource International.

Teymið var valið að loknu opnu útboði þar sem leitað var sérstaklega eftir teymum með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Sérfræðingarnir sem valdir voru til verksins eru:

  • Hafliði Eiríkur Guðmundsson, verkefnastjóri hjá ReSource International
  • Nicolas Marino Proietti, umhverfisverkfræðingur hjá ReSource International
  • Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, umhverfisráðgjafi hjá ReSource International
  • Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, hjá Transition Labs
  • Hörn Halldórudóttir Heiðarsdóttir, hjá Transition Labs
  • Kristbjörg María Guðmundsdóttir, hjá M/Studio
  • Vilborg Guðjónsdóttir, hjá M/Studio

Auðlindagarður á þessum skala yrði mikilvæg stoð í því hringrásarhagkerfi, sem gert er ráð fyrir í Græna planinu, heildarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á heimasíðu Græna plansins má sjá frekari lýsingu á verkefninu.

Um þessar mundir auglýsir Reykjavíkurborg eftir fyrirtækjum og öðrum aðilum, sem hafa áhuga á að vera með starfsemi í hringrásargarðinum á Álfsnesi. Nánar: Hringrásargarður á Álfsnesi | Reykjavik