Nýtt hverfisskipulag Hlíða-, Háteigs- og Öskjuhlíðarhverfis tók gildi 6. september 2024. Hverfisskipulagið markar stefnu fyrir hverfin til framtíðar. Heimildir til breytinga og viðbygginga á núverandi húsum hafa verið samræmdar. Fyrir íbúa er því skýrara en áður hvaða breytingar eru heimilaðar og nú er auðveldara að sækja um leyfi.
Hvað er hverfisskipulag?
Hverfisskipulag er skipulagsáætlun fyrir gróin hverfi og kemur í stað eldri deiliskipulagsáætlana sem felldar hafa verið úr gildi með samþykkt hverfisskipulagsins. Skipulagið er afrakstur umfangsmikils samráðs við fagaðila, íbúa, stofnanir og aðra sem koma við sögu. Áður hefur hverfisskipulag fyrir Árbæ og Breiðholt verið samþykkt og stefnt er að því að ljúka við gerð hverfisskipulags fyrir öll hverfi borgarinnar árið 2027.
Helstu breytingar
Skipulagstillagan fyrir þessi hverfi var í auglýsingu í 12 vikur í kringum áramótin og bárust rúmlega 60 athugasemdir á kynningartímanum, flestar frá íbúum í hverfinu. Í ljósi athugasemda voru gerðar nokkrar breytingar á skipulagstillögunni en viðamesta breytingin er sú að talsvert er dregið úr tillögum um hverfisvernd sem þóttu íþyngjandi.
Samræmdar skipulagsheimildir fela í sér að nú er auðveldara en áður fyrir íbúa að sækja um og ráðast í breytingar á húsnæði sínu án þess að fara í gegnum tímafrekar og kostnaðarsamar grenndarkynningar eða skipulagsbreytingar.
Settar eru fram skýrar heimildir um viðbyggingar, þakhækkanir og kvisti þar sem aðstæður leyfa og gerð grein fyrir heimildum fyrir aukaíbúðum, starfsemi og ýmsu öðru. Hverfisskipulagi fylgja einnig leiðbeiningar sem útfæra nánar heimildir skipulagsins, sem þarf að fylgja, þegar þær eru nýttar.
Á sérstakri síðu hverfisskipulags fyrir Hlíðar (reykjavik.is/hverfisskipulag/hlidar) má finna nánari umfjöllun um helstu áhersluatriði skipulagsins og nálgast öll skipulagsgögn.
Nokkrir áhugaverðir punktar úr hverfisskipulaginu
- Hluti byggðarinnar í Norðurmýri og Rauðarárholti og fjölbýlishúsaröð við Stigahlíð fær hverfisvernd í gulum flokki.
- Heimilt verður að setja svalir á hús í Norðurmýri og Rauðarárholti sem ekki hafa svalir í dag. Fylgja þarf samþykktum teikningum sem finna má í leiðbeiningum hverfisskipulags.
- Víða er heimilt að hækka lágreist þök og útbúa kvisti.
- Hverfisskipulag gefur heimildir fyrir ýmiskonar smáhýsum og skýlum á lóð sem auðveldar íbúum að aðlaga húsnæði sitt að nútímaþörfum.
- Í tillögum hverfisskipulags er gert ráð fyrir að útbúið verði lausagöngusvæði fyrir hunda á hluta þess svæðis á Klambratúni sem nú er umhverfis verkbækistöðina sem senn víkur.
- Skilgreindar eru sérstakar borgargötur í hverfunum sem njóta munu forgangs við endurhönnun og fegrun. Lögð er áhersla á fjölbreytta ferðamáta og góð almenningsrými í tengslum við borgargöturnar.