Hverfið mitt - kosning er hafin

Hetjan úr hverfinu
Hverfið mitt - Hetjan úr hverfinu

Kosning hófst á miðnætti á Hverfidmitt.is og öll sem eru fædd árið 2008 eða fyrr og eiga lögheimili í Reykjavík, óháð ríkisborgararétti, geta tekið þátt í kosningunni.

Kosningin er rafræn og stendur yfir til miðnættis 28. september næstkomandi.

Það er einfalt að kjósa og tekur ekki nema örfáar mínútur. Þú getur kosið í snjallsíma, tölvu eða spjaldtölvu, hvar sem er og hvenær sem er. Kjósandi velur fyrst hvaða hverfi hann ætlar að kjósa í og velur svo sínar uppáhalds hugmyndir þangað til að fjárhæð hverfisins hefur verið ráðstafað. Að lokum er smellt á kjósa og kjósendur skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.

Einfalt að kjósa

Með því að fara inn á síðuna Hverfidmitt.is, getur þú skoðað hugmyndirnar í þínu hverfi og kosið þær sem þú vilt sjá verða að veruleika.

  • Þú getur kosið oftar en einu sinni en einungis síðasta kosningin er gild.
  • Í hægra horni á hverri hugmynd er valflipi þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um tiltekið verkefni.
  • Íbúar geta sett stjörnu við eina af þeim hugmyndum sem þeir kjósa og þannig gefið þeirri hugmynd tvöfalt vægi, þ.e. tvö atkvæði í stað eins.
  • Ekki er nauðsynlegt að velja fyrir alla upphæðina sem hverfið hefur til ráðstöfunar, nóg er að velja eina hugmynd.
  • Það þarf að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli í lokin til að skila gildu atkvæði. Allar nánari upplýsingar um auðkenni má nálgast á www.audkenni.is og um Íslykil á www.island.is/islykill.

Fjölskyldan kjósi saman

Það er tilvalið fyrir fjölskyldur að kjósa saman, njóta liðsinnis barna og unglinga á heimilinu sem geta ekki kosið, og gefið þeim tækifæri á að velja verkefni sem þeim finnst eigi að fá atkvæði. Endilega látið orðið berast og segið frá verkefninu og hvetjið nágranna ykkar, vini og ættingja til að kjósa.

Það er hægt að fá aðstoð við að kjósa í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, og hjá Miðstöðvum Reykjavíkurborgar meðan á kosningunni stendur. Einnig má senda fyrirspurnir á hverfidmitt@reykjavik.is.

Til að auðvelda þátttöku íbúa sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál er vefurinn einnig á pólsku og ensku.

Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu Reykjavíkurborgar: Kosningar – Hverfið mitt.

Þitt nánasta umhverfi er í þínum höndum - taktu þátt í að gera hverfið þitt enn betra.