Hver verður Reykvíkingur ársins 2024?

Mikael Marinó Rivera, Reykvíkingur ársins 2023 við veiðar í Elliðaánum
Reykvíkingur ársins 2023 við veiðar í Elliðaánum

Ert þú með ábendingu um hver verðskuldar að verða Reykvíkingur ársins? Borgarstjórinn í Reykjavík óskar í fjórtánda sinn eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur öðrum til fyrirmyndar í borgarsamfélaginu. 

Til greina koma aðeins einstaklingar, sem hafa verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavík og íbúum borgarinnar til góða á einhvern hátt.

Þetta gæti verið einhver sem hefur haft jákvæð áhrif á  borgarlífið, sýnt nærumhverfinu alúð eða gert mikið gagn í borginni á undanförnum árum með einhverjum hætti.

Hann, hún eða hán sem hlýtur viðurkenningu sem Reykvíkingur ársins opnar Elliðaárnar með því að renna fyrir laxi í ánni ásamt borgarstjóra, í boði Stangveiðifélags Reykjavíkur sem hefur árnar á leigu.

Mikael Marinó ásamt nemendum sínum sem luku námi í stangveiði á vordögum 2023
Mikael Marinó með nemendum í Rimaskóla sem luku áfanga í stangveiði síðasta vor.

 

Reykvíkingur ársins í fyrra var Mikael Marinó Rivera grunn­skóla­kennari í Rima­skóla í Grafarvogi fyrir að virkja nem­endur sem finna ekki sitt á­huga­svið í hefð­bundnum náms­greinum í skólanum. Hann bauð meðal annars upp á val­á­fanga í flugu­veiði, Lord of the Rings, þar sem kafað er dýpra í hugarheim Tolkiens, hlaðvarp þar sem nemendur læra að gera hlaðvörp, allt frá handritagerð til birtingar á efni og Ökuskóla Mikaels, sem er undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám.

Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is.

Frestur til að senda inn tilnefningar rennur út  mánudaginn 10. júní 2024.

Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.