Hraðhleðslustöð við fjölfarna leið
Lóð fyrir hleðslustæði rafbíla er afmörkuð við Vesturlandsveg á lóðinni Grjótháls 2 og nú hefur verið auglýst eftir rekstraraðila með útboði byggingarréttar á lóðinni.
Gert er ráð fyrir 15 hleðslustæðum og skulu þau opin almenningi óháð tegund bifreiða, en þó er ekki gerð krafa um aðra tengimöguleika en CCS-2 tengi. Kvaðir eru um snyrtilegan frágang lóðar og gróðurbelti til norðurs og austurs. Borð og bekkir eiga að vera á áningarstað og heimilt er að koma fyrir sjálfsölum og minniháttar skjólveggjum. Góð lýsing þarf að vera á lóðinni, einkum við hleðslustöðvar og við áningarstað.
Allar merkingar og auglýsingar rekstraraðila skulu vera á hleðslubúnaðinum sjálfum en ekki er heimilt að setja upp auglýsingaskilti eða önnur skilti eða merkingar. Ekki er gert ráð fyrir annarri uppbyggingu á lóð en þeirri sem tengist búnaði Veitna eða hleðslubúnaði. Inni á lóðinni er gert ráð fyrir biðstæðum sem rekstraraðili útfærir, en óheimilt er að setja upp hefðbundin bílastæði.
Nánari upplýsingar er að finna í auglýsingu á vef Reykjavíkurborgar: Lóð fyrir hraðhleðslustöð. Tilboðsfrestur rennur út á hádegi föstudaginn 11. október 2024.