Hönnunarsamkeppni og áhugaverðar hugmyndir fyrir Laugardalslaug

Teikning af lifandi Laugardalslaug.

Rennibrautir af öllum stærðum og gerðum, yfirbyggt svæði fyrir yngstu börnin og veitingasala voru meðal þess sem flestir þátttakendur hugmyndasöfnunar um uppbyggingu Laugardalslaugar lögðu til. Á tólfta hundrað hugmynda barst og verða þær hafðar til hliðsjónar í hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um endurgerð laugarinnar og tengdra mannvirkja, ásamt öðrum niðurstöðum víðtæks íbúasamráðs um þessa ástkæru laug sem margir álíta drottningu íslenskra sundlauga.

 

Mikillar hugmyndaauðgi gætti hjá þeim sem sendu inn hugmyndir og var stúkan oft nefnd. Flestir hugmyndir þar tengdust gróðri og sólbaðsaðstöðu en einnig tónleikahaldi, jóga og hugleiðslu. Markmið hugmyndasöfnunarinnar var að gefa notendum laugarinnar, íbúum og öðrum hagsmunaaðilum, tækifæri til að koma sínum tillögum á framfæri. Leitast var eftir nýjum og framsæknum hugmyndum og fólk hvatt til að hugsa stórt, en ljóst er þó að laugin er mörgum mjög kær og að varlega þarf að fara í allar breytingar.

Fjölbreyttar og skemmtilegar hugmyndir

Rennibrautir voru alls nefndar 212 sinnum í innsendum hugmyndum og rennibrautagarður alloft. Svokölluð klósettrennibraut líkt og í sundlaug Akureyrar var oft lögð til, ásamt trampólínrennibraut. Mikill áhugi var á að fá öldulaug og stökkpalla og kom orðið vatnaveröld oft fyrir, þá helst í tengslum við óskir um yfirbyggt leiksvæði fyrir yngstu börnin, með til dæmis leiktækjum, heitum laugum og fossum.

Trampólín uppi á bakka eða ofan í vatni voru líka vinsælar tillögur, sem og klifurveggur, reipi til að sveifla sér í, körfuboltakörfur, skákborð, handboltavöllur og þrautabraut. Margir nefndu svokallað „lazy river“ sem þekkist víða erlendis og þá komu fyrir orð eins og rússíbani og parkour-braut. Þá komu fram hugmyndir um fiskabúr á veggi sundlaugarinnar.

Flestir sem nefndu stúkuna vildu halda henni en laga og gefa nýtt hlutverk. Hugmyndir voru um gufuböð í stúkunni með útsýni yfir laugarsvæðið og einhverjir nefndu rennibraut úr stúku og út í sundlaugina.

Pottar komu mikið við sögu og meðal hugmynda voru sjópottur, góðir nuddpottar, útsýnispottur, ljósapottur og pottur með sturtu ofan í. Ýmiss konar heit böð voru nefnd, svo sem ekta finnsk sauna, ilmkjarnasauna og tyrkneskt gufubað. Þá var hvíldaraðstaða oft nefnd í tengslum við heitu böðin.

Meðal annarra hugmynda voru til að mynda aukinn gróður, veitingasala af ýmsu tagi, bætt aðstaða fyrir hreyfihamlaða, snyrtistofa og baðströnd.

Sundlaug ekki bara sundlaug

Hugmyndasöfnunin var opin frá 28. janúar til 14. mars og var hægt að skila hugmyndum í kassa í anddyri Laugardalslaugar, á netfangið hugmynd@itr.is og á síðunni Betri Reykjavík, sem var á íslensku, ensku og pólsku. Auk þessa var haldinn rýnifundur með forstöðufólki sundstaða, tekin samtöl við hagsmunaaðila, rætt við börn á frístundaheimilum í hverfinu og farið í vefumræðuborð Maskínu.

„Laugin er löngu komin á tíma vegna viðhalds, sjálft laugarkarið, lagnir og fleira. Það er kominn tími á að endurnýja allt,“ sagði Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, þegar fjallað var um hugmyndasöfnunina fyrr á árinu. „Og það skiptir máli hvernig laugin á að þróast. Á Íslandi er sundlaug ekki bara sundlaug. Hún er samfélagsmiðstöð og hefur mikilvægt hlutverk sem slík.“

Búist við niðurstöðum dómnefndar um mitt næsta ár

Hönnunarsamkeppnin verður í tveimur þrepum og haldin í samráði við Arkitektafélag Íslands. Unnið hefur verið úr þeim hugmyndum sem bárust í hugmyndasöfnun og verða þær hluti samkeppnisgagna, með afgerandi áhrif þar sem keppendur verða hvattir til að horfa til hugmyndanna við tillögugerð sína. Skipuð verður dómnefnd sem semur samkeppnislýsingu, annast yfirferð tillagna og skilar niðurstöðum sínum til Reykjavíkurborgar. Áætlað er að niðurstaða dómnefndar geti legið fyrir um mitt næsta ár, 2023. Í gildi er deiliskipulag svæðisins sem samþykkt var í borgarráði 19. október 2000 með síðari breytingum. Niðurstaða samkeppninnar kann að hafa breytingar á því skipulagi í för með sér en unnið er að heildarsýn á skipulagi Laugardals, mannvirkja og útivistarsvæða á öðrum vettvangi.

Með samkeppninni er stefnt að því að Laugardalslaug ásamt stúkumannvirki og útisvæðum verði lýðheilsu- og menningarmiðstöð. Samkomustaður í víðum skilningi þar sem ólík starfsemi fléttast saman og áhersla er lögð á góða þjónustu við almenning. Þá er lögð áhersla á að öll hönnun og úrbætur taki tillit til umhverfisvænna lausna og viðmiða og að áhersla verði lögð á endurnýtingu og sjálfbærni í samræmi við hugmyndafræði Græna plansins.