Hlemmur meðal þróunarreita í 1,5 milljarða nýsköpunarverkefni um öryggi og upplifun
Borgarhönnun Hjólaborgin
Reykjavíkurborg og samstarfsaðilar hennar fengu á dögunum vilyrði fyrir fjögurra ára styrk í gegnum Horizon Europe rammaáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið heitir AMIGOS og lítur að bættu öryggi og upplifun ólíkra vegfarenda í kringum samgöngukjarna. Umbreytingar við Hlemm og nágrenni á næstu árum, verða helsta viðfangsefnið í framlagi Reykjavíkur til verkefnisins.
Heildarumfang AMIGOS er 1,5 milljarður króna og nemur styrkur vegna þátttöku Reykjavíkurborgar um 75 milljónum. Alls taka 28 samstarfsaðilar frá 16 löndum þátt og verða samgöngureitir innan tíu borga skoðaðir með úrbætur í huga. Meðal samstarfsborga eru Hamborg, Istanbul, Bologna, Las Rozas, Lappeenranta og Nazaret.
Nýstárlegar tæknilausnir og öflugt samráð
AMIGOS, stendur fyrir „Active Mobility Innovations for Green and safe city sOlutionS”. Helstu markmið og efnistök eru að útfæra nálganir á öruggum, ódýrum og sjálfbærum lausnum sem skilja engan útundan, þ.m.t. aldraða, fatlaða og ungmenni. Verkefnið mun draga saman nýstárlegar tæknilausnir, samsköpunar- og samráðsaðferðir til að skoða og meta hermun á því hvernig best er að hvetja til virkra ferðamáta, minnka bílaumferð og stilla saman skörun ólíkra kosta á sanngjarnan og öruggan hátt.
Meginmarkmið og framkvæmd AMIGOS mun styðja við aðgerðaráætlanir Græna Plansins um kolefnishlutleysi, grænar samgöngur, 15-mínútna hverfi og áherslur á lýðheilsu, samfélag án aðgreiningar, lýðræðislega þátttöku, stafræna vegferð og notendamiðaða þjónustu. Það mun einnig styðja við velferðar- og lýðræðisstefnur borgarinnar að því leyti sem svæðið í kringum Hlemm verður skoðað og metið með tilliti til aðgengismála, öryggis og heilsufarslegra áhrifa, og mun byggja markvisst á þátttöku hagaðila í samsköpunarverkstæðum.
Alþjóðleg nýsköpun og rannsóknarsamstarf
Reykjavíkurborg hefur í nokkur ár unnið skipulega að aukinni þátttöku í alþjóðlegum nýsköpunar- og þróunarverkefnum, með aðkomu Horizon 2020 og nú Horizon Europe. Með þessari þátttöku er verið að efla þekkingu borgarinnar á framsæknum hugmyndum og lausnum.
Meðal stórra samstarfsverkefna sem borgin hefur tekið þátt í á síðustu árum má nefna PaCE, SPARCS og IMPULSE. Utanumhald og framkvæmd þessa verkefna er í höndum Athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, en framkvæmd verkefnanna er með aðkomu ólíkra fagsviða.
Nánari upplýsingar:
-
Minnisblað um nýtt evrópskt samstarfsverkefni. Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar 25. janúar 2023
-
Kynningarglæra: Byggjum upp þekkingu á borgarþróuninni