Hjólagarður í Skálafelli - Ekki bara fyrir adrenalínfíkla

Hjólaborgin Íþróttir og útivist

Í Skálafell Bike Park er hægt að fara með hjólin upp í stólalyftunni. Mynd: Anton Gunnarsson.
Í Skálafell Bike Park er hægt að fara með hjólin upp í stólalyftunni. Mynd: Anton Gunnarsson

Mörgum er hlýtt til skíðasvæðisins í Skálafelli en færri vita að í fjallinu er rekinn hjólagarður á sumrin. Skálafell Bike Park státar af frábærri aðstöðu fyrir „downhill“-hjólaíþróttina, með brautum, stökkpöllum og öllu tilheyrandi. Íþróttin hentar þó ekki bara adrenalínfíklum í toppformi, heldur geta flest fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Við fáum alls konar fólk til okkar,“ segir Bob Maarten van Duin, rekstrarstjóri Skálafells. „Ég man til dæmis eftir móður sem kom með syni sínum. Hún kom með reiðhjólið sitt, fallegt hjól með körfu framan á og nettan götureiðhjólahjálm. Hún prófaði að hjóla hérna og kom aftur viku seinna, leigði sér downhill-hjól og kolféll fyrir íþróttinni ásamt syni sínum. Þetta er fyrir alla.“ 

Skálafell Bike Park er opinn þrisvar í viku; þriðjudaga og fimmtudaga kl. 18-21 og sunnudaga kl. 11-14. Oftast er opið í júlí og ágúst en veðurfar getur haft áhrif. „Það gengur sjaldan að hafa opið seinna en þetta á haustin vegna veðurs og myrkurs og það er ekki hægt að opna fyrr á sumrin því þá er ennþá svo mikil bleyta í fjallinu. Það tekur tíma fyrir fjallið að ná sér eftir veturinn en við opnum um leið og það er hægt. Oftast er það fyrstu vikuna í júlí en í ár tókst það ekki fyrr en 24. júlí því bleytan var svo mikil. Þetta hefur því miður verið mjög slæmt sumar,“ segir Bob, en þegar viðtalið er tekið eru um það bil tvær vikur eftir af tímabilinu og aðeins hefur verið hægt að opna garðinn fimm sinnum. „Á venjulegu sumri náum við að opna 18-24 daga en það er búið að rigna í allt sumar. Við höfum þurft að endursmíða brautirnar þrisvar sinnum, þær skolast bara í burtu.“ Ekki er útilokað að opnunartími lengist að hausti en þá er opið fyrr á daginn vegna myrkurs. Best er að fá upplýsingar um garðinn og opnunartíma á samfélagsmiðlum hans á Facebook og Instagram

Brautir sem henta ólíkum getustigum

Hjólagarðurinn í Skálafelli hefur þá sérstöðu að mikil vinna og háar fjárhæðir eru lagðar í að byggja upp vandaðar brautir. Þar er líka lengsta stólalyfta landsins og enn lengri og hraðvirkari lyfta væntanleg. Skálafell og Hlíðarfjall eru einu svæðin sem bjóða hjólafólki að nota stólalyftur sínar og fá gestir aðstoð við það. „Stundum langar fólk að sleppa við að þurfa að hjóla upp og vill bara njóta þess að fá útrás. Það stendur til á fleiri skíðasvæðum að veita þessa þjónustu og þetta er skemmtileg þróun,“ segir Bob. 

Í Skálafelli eru þrjár hjólabrautir sem henta mismunandi getustigum og reynt er að bjóða upp á nýjungar í brautunum á hverju ári. „Flowtrail hentar vel fyrir byrjendur og þá sem vilja hjóla í rólegheitum. Rollercoaster er nokkuð hröð braut með litla og meðalstóra stökkpalla og „wallrides“, þar er aðeins meira adrenalín. Jumptrail er mjög hröð braut með stórum stökkpöllum, „drops“ og „wallrides“ en svo erum við líka með hálfgerða braut sem kallast Steinbítur. Sú leið fer beint niður bröttu brekkuna sem skíðafólk þekkir sem svörtu leiðina. Það er ekki smíðuð braut heldur eru þar bara stikur og steinar og finna þarf hröðustu leiðina niður.“ 

Sprengja í aðsókn

Hjólreiðar verða sífellt vinsælli og frá árinu 2017 hefur orðið sprenging í „downhill“-íþróttinni hér á landi. „Ég tók við Skálafelli þá og síðan hefur aðsóknin eiginlega tvöfaldast á hverju ári. Áður komu 35 manns í fjallið að meðaltali á stærstu dögunum en meðaltalið í hitteðfyrra var 106 manns. Stærsta daginn þá komu 200 manns og yfir tímabilið komu um tvö þúsund gestir. Covid og veður hafa haft sín áhrif síðan en það er mjög gaman þegar margir mæta, við kveikjum á tónlist og það er mikil stemmning í fjallinu,“ segir Bob. Flestir sem koma í hjólagarðinn koma með eigin fjallahjól, en hægt er að leigja vönduð „downhill“-hjól og allan öryggisbúnað. „Svo seljum við drykki og súkkulaði en engan mat. Við prófuðum það en fólk tekur frekar með sér nesti. Hér er mikið stuð og ef veður er í verra lagi þá þjappar fólk sér bara betur saman, talar um hvað sé kalt en hvað þetta sé samt gaman,“ segir hann og hlær. „Þetta er mjög þægilegur og skemmtilegur kúnnahópur.“ 

Svipuð tilfinning og í vatnsrennibraut

En hvað er svona skemmtilegt við þetta sport? „Adrenalínið og hraðinn,“ svarar Bob án umhugsunar. „Þetta er svipað tilfinningunni sem fæst í vatnsrennibraut en þú stýrir hraðanum. Þetta er góð útrás. Þetta er hættuleg íþrótt en samt kannski ekki. Skálafell Bike Park hefur verið til í ellefu ár og mér telst til að sjúkrabílar hafi bara þurft að koma hingað fjórum sinnum á þeim tíma. Það er ekki mikið fyrir áhættuíþrótt. Hjólin geta náð allt að 60 km hraða, í mjóum brautum með beygjum og öllu tilheyrandi. Auðvitað er eitthvað um minniháttar meiðsli en þetta kom mér ánægjulega á óvart. Ég hvet fólk til að prófa, þetta er skemmtilegt sport sem hentar flestum.“