Hægt gengur að skipta út nagladekkjum

Samgöngur Umhverfi

""

Tími sumardekkja er runninn upp í Reykjavík. Nagladekk eru ekki leyfileg á götum borgarinnar eftir 15. apríl. Þau valda mengun, sliti og ekki síst hávaða. Óvenju hægt gengur um þessar mundir að skipta um dekk á bifreiðum miðað við nýja talningu EFLU. Skýringuna má m.a. leita í COVID 19. 

Hlutfall negldra dekkja er töluvert hærra í ár en í fyrra og síðastliðin ár, eins og sjá má á meðaltalsdreifing á notkun negldra og ónegldra hjólbarða í Reykjavík síðastliðin 5 ár sem EFLA hefur gert. Hlutfall negldra dekkja var talið fimmtudaginn 16. apríl. 

Hlutfallið skiptist þannig að 40% ökutækja reyndust vera á negldum dekkjum og 60% á ónegldum. Hlutfall negldra dekkja er nánast það sama og í síðustu talningu, 3. mars 2020 en þá var það 41%.

Í fyrra voru ökumenn fljótir að skipta um dekk en þá einnig talið um miðjan apríl og var hlutfall þeirra ökutækja sem voru á negldum dekkjum töluvert minna, eða 31%. Fyrir tveimur árum var hlutfallið enn lægra eða 22%.

Skýringarnar á því hversu hægt þetta gengur núna felast m.a. í því að það þarf að bíða lengur eftir því að fá tíma á dekkjaverkstæði vegna COVID 19, en sömu sóttvarnarreglur gilda þar eins og annars staðar. Dekkjaverkstæði hafa þó bryddað upp á nýjum lausnum, t.d. að sækja bílana eða leyfa bílstjórum að sitja inn í þeim þegar skipt er  um. Mikilvægt er að panta tíma sem fyrst.

Hvað er svifryk?

Svifryksmengun er ein af helstu ástæðum heilbrigðisvandans sem rekja má til mengunar í borgum. Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin. Stór hluti eða yfir 80% af svifrykinu í Reykjavík stafar af bílaumferð.

Uppruni svifryks: Rannsókn EFLA, 2017

malbik 48,9%
sót 31,2%
jarðvegur 7,7%
bremsur 1.6%
salt 3,9%

Niðurstöðurnar styðja eindregið þann grun að vægi sóts í svifryki hefur vaxið mjög á síðustu árum sem má sennilega rekja til mikillar aukningar bílaumferðar og hækkandi hlutfalls díselbíla. 

Loftgæði: Hægt er að fylgjast með loftmengun í Reykjavík hér: Loftgæði.

Tengill

Tökum nagladekkin úr umferð