Glæsilegur stígur í Suður­hlíð­um opnaður

Hjólaborgin Samgöngur

Suðurhlíðar

Nýr göngu- og hjólastígur um Suðurhlíðar í Reykjavíkur var formlega opnaður í dag að viðstöddum nemendum úr 6.bekk í Fossvogsskóla. Opnunin er hluti af Samgönguviku sem nú stendur yfir. Hjólreiðar séu raunhæfur samgöngumáti sem er stuðlar að bættri heilsu íbúa, auk þess að létta á umferð bíla og draga úr mengun.

Krakkarnir úr Fossvogsskóla komu hjólandi með kennurum sínum og létu ekki sitt eftir liggja við að gera opnunina skemmtilega og eftirminnilega. Einhjólari frá Sirkus Íslandi sýndi listir sínar eftir stutt ræðuhöld og borðaklippingu.

Við opnunina sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, að samkvæmt samgönguáætlun Reykjavíkur væri stefnt að því að hlutdeild hjólreiða í samgöngum verði 12% árið 2030. „Nú þegar er hlutdeild hjólandi í Reykjavík um 7-8% af öllum ferðum. Þetta markmið er hluti af heildarstefnu borgarinnar til að auka hlutdeild vistvænna samgöngumáta og draga úr notkun einkabíla. Hjólastígar eins og þessi sem við opnum í dag, tengja saman hverfi og gera það auðveldara fyrir fólk að komast á milli staða á öruggan og þægilegan hátt. Þeir eru ekki aðeins fyrir hjólreiðafólk heldur einnig fyrir gangandi vegfarendur, hlaupafólk og jafnvel þá sem vilja njóta útivistar með fjölskyldunni,“ sagði hún.

Tengir stígakerfi saman

Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri Höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar, sagði stíginn mikilvægan hlekk í stofnstígakerfi hjólandi vegfarenda. „Hann tengir saman hjólastíg meðfram Kringlumýrarbraut og Bústaðarvegi inn á stígakerfi inn í Nauthólsvík og inn í Fossvogi og Elliðarárdal. Stígurinn er jafnframt tenging við stofnleiðir inn í Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð en við höfum einmitt verið að leggja áherslu á uppbyggingu fyrir hjólandi á þessari leið til að tengja sveitarfélögin inn á skóla- og atvinnusvæðin miðsvæðis. Þessi stígur er hluti af stærra neti hjólastíga sem mun þjóna stórum hluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu.“

625 metra langur stígur

Þá lýsti Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, yfir ánægju með nýja stíginn, sem er um 625 metra langur. „Ég þakka Vegagerðinni, Reykjavíkurborg, hönnuðum og verktökum kærlega fyrir vel heppnað verk, og krökkunum í Fossvogsskóla, fyrir að vígja stíginn og vera með okkur hér í dag.“

Framkvæmdir hófust í byrjun ársins og gengu vel. Forhönnun og verkhönnun var í höndum VBV verkfræðistofu Bjarna Viðarssonar. Verkfræðistofa Reykjavíkur hafði umsjón með eftirliti. Verktaki er D.ing.

Stígurinn er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og heyrir undir Samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga um innviðauppbyggingu á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Með sameiginlegu átaki hefur náðst að skapa örugga og aðgengilega leið fyrir hjólreiðafólk, gangandi vegfarendur og alla þá sem vilja njóta útivistar.

Samgönguvika 2024 dagskrá