Framkvæmdir eru að hefjast á ný í Tryggvagötu við Tollhúsið. Verið er að endurnýja götuna og skapa í leiðinni spennandi dvalarsvæði þar sem mannlífið fær að njóta sín, sem kristallast í nýju sólartorgi við listaverk Gerðar Helgadóttur.
Reykjavíkurborg og Veitur hófu framkvæmdir á þessum hluta Tryggvagötu í fyrra en yfirborðsfrágangur er eftir. Lagnir eru endurnýjaðar auk þess sem gatan fær nýtt og fallegt yfirborð.
Torgið tilbúið fyrir sumarið
Markmiðið er að nýta þessa góðu tíð til að klára þennan hluta verksins á vetrarmánuðum. Stefnt er að því að klára stéttina sunnan megin í apríl en að torgið sjálft við listaverkið verði klárt fyrir sumarið. Verður gaman að sjá mannlífið færast út á torgið í sumar en rekstraraðilar við Tryggvagötu munu fá tækifæri til að nota hluta torgsins fyrir gesti sína, í samstarfi við Reykjavíkurborg, sem mun áreiðanlega skapa góða stemningu.
Gönguleið meðfram Tryggvagötu sunnanverðri verður haldið opinni og aðgengi rekstraraðila tryggt. Á meðan grafið er næst húsunum verður notast við rampa til að tryggja aðgengi að þeim rekstri sem þarna er en lögð er áhersla á að sá tími verði sem stystur.
Áhrif á bílaumferð
Framkvæmdirnar hafa áhrif á bílaumferð en framkvæmdasvæðið verður lokað fyrir akandi umferð á meðan á framkvæmdatíma stendur. Umferðin verður með sama hætti og á meðan framkvæmdum stóð á síðasta ári. Umferðarstefnu verður snúið við í hluta Tryggvagötu á milli Pósthússtrætis og Lækjargötu.
Tryggvagatan verður síðan lokuð á milli Grófarinnar, frá Grillhúsinu að Naustum. Það svæði breytist svo í vor í botnlanga sem er aðgengilegur frá Naustum þegar framkvæmdasvæðið færist yfir á gatnamót Grófarinnar.
Annar áfangi við Hafnarhúsið
Framkvæmdir á öðrum áfanga fyrir framan Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu hófust í byrjun mánaðar. Annar áfangi nær frá Naustum að Grófinni en verkinu er skipt upp í smærri einingar til að tryggja sem best aðgengi að nærliggjandi rekstri. Með þessu verklagi er til að mynda hægt að sjá til þess að aðgengi að Listasafni Reykjavíkur haldist óbreytt á framkvæmdatímanum.
Þarna er einnig búið að vera að nýta góða tíð, meðal annars til að hafa nægan tíma til að kanna hvort mögulegar fornleifar lægju þarna í jörðu. Engar fornleifar hafa komið í ljós á þessum kafla. Búist er við því að vinnu við þennan hluta götunnar verði einnig lokið fyrir sumarið.
Þá hefst vinna við vestari helming þessa hluta Tryggvagötu við Grófina og nær framkvæmdasvæðið sjálft til gatnamóta Grófarinnar líka. Stefnt er að því að verkinu verði lokið í haust. Eftir framkvæmdir verður meira pláss fyrir gangandi fólk og alla virka ferðamáta en gatan verður einstefna til vesturs.
Áhersla hefur verið lögð á góða upplýsingamiðlun á framkvæmdatímanum. Framkvæmdin er hluti af því að gera borgina okkar betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta.
- Hægt er að lesa aðrar fréttir af framkvæmdunum, skoða framkvæmdasjá, bæklinga og myndir á heimasíðu verkefnisins
- Skoða kort yfir framkvæmdasvæðið og göngu- og akstursleiðir
- Skoða þrívíddarmyndir af svæðinu í myndasafni Reykjavíkurborgar