Tryggvagata

Miðborg Reykjavíkur hefur verið efld á undanförnum árum og hafa bæði nýjar götur og byggingar bæst við. Einnig hafa eldri götur gengið í endurnýjun lífdaga. Framkvæmdir við Tryggvagötu eru hluti af því að gera borgina okkar betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta.

Af hverju?

Nú er haldið áfram að endurnýja Tryggvagötu, bæði lagnir í jörðu ásamt nýju og fallegu yfirborði. Framkvæmdirnar breyta ásýnd götunnar til hins betra og verður aðgengi fyrir gesti, íbúa og fyrirtæki bætt, ásamt aðstöðu fyrir vörulosun. Útkoman verður glæsilegri og aðgengilegri Tryggvagata með sólríku dvalarsvæði. Gatan verður eftir framkvæmdir betri vettvangur fyrir lifandi mannlíf á svæðinu sem styður við þá fjölbreyttu þjónustu sem er á svæðinu.

Hvenær?

Verkefnið verður framkvæmt í þremur áföngum. Fyrsti áfangi er Tryggvagata fyrir framan Tollhúsið og Naustin sem byrjað var á árið 2020, annar áfangi er Tryggvagata að Grófinni árið 2021 og þriðji áfangi er Grófin sem verður framkvæmdur vorið og sumarið 2022.

Tryggvagata og Naustin

Tryggvagata verður endurgerð milli Pósthússtrætis og Grófarinnar. Naustin verða endurgerð milli Tryggvagötu og Geirsgötu.

Áfram verður unnið við að fegra og endurgera Tryggvagötuna. Frá endurgerðu Bæjartorgi og Steinbryggju verður haldið áfram til vesturs að Naustum. Svæðið fyrir framan Tollhúsið er sólríkt og þar verður glæsilegt almenningsrými. Naustin verða einnig endurgerð frá Tryggvagötu að Geirsgötu. Árið 2021 er svo áætlað að vinna áfangann frá Naustum að Grófinni og vorið 2022 er sjálf Grófin á dagskrá.

Áætlað er að framkvæmdirnar við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Grófinni muni kosta 450 milljónir króna. Verkið er unnið í samstarfi við Veitur.  

Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu

Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu mun að loknum framkvæmdum fá að njóta sín betur en áður. Undir listaverkinu verður torg sem liggur einstaklega vel við sólu og hentar því vel sem dvalarsvæði fyrir vegfarendur. Á svæðinu verða einnig litlir þokuúðarar sem bjóða upp á leik og veita svæðinu ákveðna dulúð.

Mósaíkmyndin

Mósaíkmyndin á suðurhlið Tollhússins var sett upp fyrir nærri hálfri öld, sumarið 1973. Arkitekt hússins, Gísli Halldórsson, sagði þegar verkið kom til landsins, að myndin lyfti upp svipnum á Tryggvagötunni. Það eru orð að sönnu og mun hún gera það enn betur að framkvæmdum loknum. Listaverkið verður lýst upp og fá mósaíksteinarnir að njóta sín betur en áður á þessum 142 fermetra fleti.

 

Gerður var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist hér á landi og einnig frumkvöðull í glerlist. Listakonan lést tveimur árum eftir að Tollhúsverkið var klárað, aðeins 47 ára gömul. Minning hennar mun lifa áfram í listaverkinu, nú við fallegt, gróðursælt og sólríkt torg.  

Tölvumynd af mósókaverkinu á Tollhúsinu

Aðlaðandi borgarbragur

Lífleg og fjölbreytileg almenningsrými og aðlaðandi borgarbragur eru leiðarljós við þessa framkvæmd, enda meginmarkmið Aðalskipulags Reykjavíkur. Nýlega samþykkt deiliskipulag fyrir Tryggvagötu dregur fram þessar áherslur aðalskipulagsins ásamt því að auka gæði umhverfisins til muna. Arkitektúr og list í götunni verða meira áberandi og gangandi vegfarendur fá aukið rými.

Reykjavíkurborg og Veitur vinna sameiginlega eftir nýjum verkferlum framkvæmda í miðborginni. Gott aðgengi á framkvæmdatíma og gagnleg upplýsingamiðlun á meðan framkvæmdir standa yfir verður í fyrirrúmi.

Lagnir vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu verða endurnýjaðar. Margar þessara lagna eru komnar til ára sinna, en skólplögnin og kaldavatnslögnin eru frá árinu 1925 og hafa því þjónað íbúum og fyrirtækjum í miðbænum í tæpa öld.

Upplýsingar

Áhersla er lögð á góða upplýsingamiðlun á framkvæmdatímanum.

  • Umhverfis- og skipulagssvið, Borgartúni 12-14 105 Reykjavík s. 411 1111
  • Veitur ohf, Bæjarhálsi 1 110 Reykjavík s. 516 6000

Hægt er að hafa samband í tölvupósti á netfangið tryggvagata@reykjavik.is ef einhverjar spurningar vakna.