Lokið er við að búa framkvæmdasvæðið við Tryggvagötu frá Pósthússtræti, um Naustin og framhjá Listasafni Reykjavíkur, undir tímabundna opnun. Gatan hefur verið opnuð fyrir allri umferð.
Gengið hefur verið snyrtilega frá svæðinu fyrir alla sem eiga leið um, hvort sem er á bifreiðum, hjólum eða gangandi. Tryggvagata var malbikuð og opnuð fyrir umferð frá austri til vesturs frá Lækjargötu og Pósthússtræti.
Búið er að endurskoða áætlun yfir verkið í heild. Ekki verður farið í uppgröft á stéttum á þessu ári þar sem tíminn er floginn frá okkur. En þetta verður gert eins fljótt og auðið er á vormánuðum ásamt vinnu við seinni áfanga Tryggvagötu að Grófinni.
Tryggvagata hefur verið malbikuð og einnig göngustígur meðfram Tollhúsinu og nú er verið að undirbúa svæðið fyrir umferð bíla og gangandi vegfarenda á meðan framkvæmdir eru í vetrardvala. Almennt má segja að verkið hafi gengið vel en það bættist við endurnýjun lagna og brunna við Bæjartorg og meira var að gera hjá fornleifafræðingum á svæðinu en búist var við.
Fjölsótt og lifandi á aðventunni
Svæðið hefur þá alla burði til að vera fjölsótt og lifandi það sem eftir er aðventunnar. Lýsing er komin á Tryggvagötu og Naustin. Girðingar hafa verið settar þar sem það þarf. Öryggisúttekt var gerð síðustu viku og hefur svæðið fengið grænt ljós en fylgst verður með svæðinu út frá aðgengi.
Allar lagnir Veitna hafa verið endurnýjaðar. Fráveitan var með tæplega 100 ára gamla lögn sem var endurnýjuð. Skólp og regnvatn var aðgreint í leiðinni og komið fyrir bæði skólp- og regnvatnsbrunnum. Tæplega 100 ára vatnslögn var sömuleiðis endurnýjuð ásamt hitaveitu og raflögnum.
Tíminn fram að því að framkvæmdir hefjast á nýju ári verður nýttur af verkefnateyminu til að rýna teikningar, verklýsingar og fasaskiptingu verkþátta næsta árs. Farið verður yfir vinnusvæða-merkingar og gerð heildstæð áætlun verkefnis. Farið verður yfir allt efni sem þarf að liggja fyrir og efnissamþykktir bæði frá verkkaupa og verktaka og efnisáætlun útbúin.
Haldið áfram í vor
Verkefnið er hluti af því að gera borgina okkar betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta. Endurgerð Tryggvagötu liggur á milli Pósthússtrætis og Grófarinnar. Naustin verða endurgerð milli Tryggvagötu og Geirsgötu. Í ár var unnið í áfanganum frá Pósthússtræti að Naustum ásamt Naustunum norðanmegin. Árið 2021 verður sá áfangi kláraður ásamt síðasta áfanganum, Tryggvagötu frá Naustum að Grófinni.
Framkvæmdasvæðið við Tryggvagötu er m.ö.o. reiðubúið fyrir aðventuna. Allar merkingar komnar upp. Hægt er að skoða þær á kortinu sem hér er sýnt á mynd.
Tenglar