Forvarnaráætlun til næstu tveggja ára samþykkt

Heilsa Íþróttir og útivist

Blörruð hópmynd af ungmennum inni í skólabyggingu.

Forvarnaráætlun barna og ungmenna 2024- 2026 var samþykkt í borgarráði í dag. Markmið hennar er að bregðast við helstu áskorunum sem eru til staðar í forvarnarmálum varðandi börn og ungmenni í Reykjavík, svo sem hrakandi andlegri líðan, minni svefntíma og neikvæðum áhrifum skjánotkunar.

Forvarnaráætlun Reykjavíkur 2024-2027 er unnin út frá lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar, Heilsuborginni Reykjavík: „Borgin sem ég vil búa í“, sem var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 5. október 2021. Leiðarljós stefnunnar eru að áhersla á lýðheilsu sé ofin inn í alla starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur og að öll forvarnarvinna byggi á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Helstu áherslur forvarnaráætlunarinnar eru fjölbreytileiki, verndandi þættir og jákvæð samskipti, góð líðan og forvarnir gegn ofbeldi. Tekið er mið af áherslum verkefnisins Betri borg fyrir börn sem miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Miðstöðvar borgarhlutanna í lykilhlutverki

Sérstaklega var hugað að samhæfingu við Heimsmarkmið og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, lýðheilsu,- velferðar,- mennta- og íþróttastefnur Reykjavíkurborgar, stefnu Reykjavíkurborgar um frístundaþjónustu og verkefni Heilsueflandi samfélags. Áætlunin er unnin á grundvelli breiðrar samvinnu og verður hún lögð til grundvallar við úthlutun á fjármagni til forvarnarverkefna. Byggt er á sterkum grunni og ríkri hefð fyrir forvarnarvinnu í Reykjavík og Forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar 2014-2019.

Forvarnarstarf fer fram í nánasta umhverfi barna og ungmenna þar sem skóla- og frístundastarf gegnir mikilvægu hlutverki. Miðstöðvar borgarhlutanna eru í lykilhlutverki við að tryggja samhæfingu og samstarf þeirra aðila sem styðja börn, ungmenni og foreldra þeirra í hverfum borgarinnar. Miðstöðvarnar útvega jafnframt sérfræðiþekkingu sem til þarf við staðbundnar áskoranir í forvörnum.

Árangur metinn reglulega

Forvarnaráætlunin hefur verið unnin þverfaglega og kynnt í velferðarráði, skóla- og frístundaráði og menningar-, íþrótta- og tómstundaráði. Hún er fjármögnuð að stærstum hluta úr fjárhagsramma en einnig er hægt að sækja um styrki fyrir einstökum verkefnum og tekur fjármögnun þeirra mið af fjárhagsáætlun hverju sinni. Forvarnaráætlun er á ábyrgð forvarnateymis Reykjavíkurborgar og unnin í samstarfi við skóla- og frístundasvið, menningar- og íþróttasvið, umhverfis- og skipulagssvið, velferðarsvið, miðstöðvar og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Árangur af forvarnarstarfinu verður metinn reglulega með rannsóknum sem Reykjavíkurborg hefur aðgang að.