Fjölsóttur kynningarfundur um þróunarreit í Elliðaárdal

Skipulagsmál Umhverfi

""

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hélt kynningarfund um deiliskipulag við Stekkjarbakka (Þ73) sem er í auglýsingu til 4. mars 2019. Um er að ræða opið svæði og þróunarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs opnaði fundinn og bauð gesti velkomna sem voru um 200 talsins. Hún sagði að þetta væri hefðbundinn fundur vegna deiliskipulags og markmiðið væri að miðla upplýsingum á skilvirkan hátt. Hún sagði að í gangi væri vinna við heildarskipulag Elliðaárdalsins, allt svæðið yrði skoðað og þar kæmi í ljós hvort tilefni væri til frekari verndunar.

Garðyrkja og gróðurhús

Þráinn Hauksson hjá Landslagi ehf kynnti deiliskipulag fyrir þróunarreit 73. Hjördís Sigurðardóttir frá Spor í sandinn kynnti ALDIN BioDome gróðurhvelfingu og Kristinn H. Þorsteinsson kynnti fyrirhugaða starfsemi Garðyrkjufélags Íslands á svæðinu.

Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti stjórnaði fundinum en eftir kynningar voru fyrirspurnir og svör. Fundargestir virtust sammála um að fundurinn hefði verið góður og heyrðust bæði efasemdarraddir og ánægjuraddir um skipulagið. Fundargestir áttu síðan margir hverjir uppbyggilegar samræður og gott samtal við sérfræðinga í skipulags- og umhverfismálum.

Starfsemi, sem getur verið á umræddu þróunarsvæði (Þ73) norðan Stekkjarbakka, og er talin henta í nálægð útivistarsvæðisins, tengist fyrst og fremst útivist, íþróttastarfsemi eða samfélagsþjónustu, auk þess sem heimilt er að gera ráð fyrir grænni starfsemi, ræktun og gróðrarstöð og sem því tengist.

Uppbygging falli vel að landslagi

Í auglýstri skipulagstillögu er gert ráð fyrir að fyrirhuguð uppbygging falli vel að landslagi og umhverfi og tryggð verði góð tengsl við nærliggjandi umhverfi með fyrirkomulagi nýrra stíga, gatna og opinna grænna svæða.

Þróunarreiturinn sem um ræðir er þegar raskað svæði og voru flestir sammála um að kjörið væri að fá einhverja starfsemi á svæðið. Hægt er að kynna sér málið og senda inn athugasemdir:

Tillagan er aðgengileg á skjá í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 – 16:15 til 4. mars 2019.  

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. 

Ábendingum og athugasemdum við tillöguna verður að skila skriflega eða með tölvupósti á netfangið skipulag@reykjavik.is til  skipulagsfulltrúa, eigi síðar en 4. mars 2019.

Fundargerð

Deiliskipulag kynning

ALDIN BioDome – kynning

Skipulag í kynningu –gera athugasemd

Upptaka af fundi