Fimm tilboð bárust í Toppstöðina

Fjármál

Toppstöðin í Elliðaárdal, gatan í forgrunni, blár himinn í bakgrunni

Fimm tilboð bárust í Toppstöðina, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal, en frestur til að skila inn tilboðum rann út 14. ágúst síðastliðinn.

Borgarráð heimilaði í júní síðastliðnum að hefja söluferli á Toppstöðinni og efnt var til samkeppni þar sem fleiri þættir en kaupverð skyldu hafa áhrif við mat á tilboðum. Tilboðin liggja nú fyrir og eru eftirfarandi:

 

Akstursíþróttafélag Íslands: Skipti á lóð

APT holdings ehf: 25 milljónir króna

Hilmar Ingimundarson: 420 milljónir króna

Iða ehf: 287,5 milljónir króna

Landsvirkjun: 725 milljónir króna

 

Toppstöðin er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og er gildandi fasteignamat tæpar 775 milljónir króna.

Frá því að eigninni var afsalað til borgarinnar hafa komið fram ýmsar hugmyndir að notkun rafstöðvarinnar, svo sem hugmynd að kvikmyndaveri, nýsköpunarsetri og miðstöð fyrir jaðaríþróttir. Árið 2016 samþykkti borgarráð stefnu um þróun Elliðaárdals undir heitinu „Sjálfbær Elliðaárdalur“, þar sem horfið var frá hugmyndum um niðurrif hússins og lagt til að leita frekar að samstarfsaðilum. Þrisvar hefur verið auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu Toppstöðvarinnar undir jaðaríþróttir en viðræður hafa ekki skilað niðurstöðu. Var því ákveðið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að kaupa eignina.

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum.