Toppstöðin í Elliðaárdal sett í söluferli

Fjármál

Toppstöðin í Elliðaárdal, gul sina og Elliðaá í forgrunni, blár himinn með nokkrum skýjum í bakgrunni

Borgarráð heimilaði í dag að hefja söluferli á Toppstöðinni, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal. Haldin verður samkeppni þar sem fleiri þættir en kaupverð munu hafa áhrif við mat á tilboðum.

Árið 2008 afsalaði Landsvirkjun til Reykjavíkurborgar lóð númer fjögur við Rafstöðvarveg, ásamt varastöð Landsvirkjunar, Toppstöðinni. Toppstöðin er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og er gildandi fasteignamat tæpar 775 milljónir króna.

Viðræður um samstarf ekki skilað árangri

Frá því að eigninni var afsalað til borgarinnar hafa komið fram ýmsar hugmyndir að notkun rafstöðvarinnar, svo sem hugmynd að kvikmyndaveri, nýsköpunarsetri og miðstöð fyrir jaðaríþróttir. Árið 2016 samþykkti borgarráð stefnu um þróun Elliðaárdals undir heitinu „Sjálfbær Elliðaárdalur“, þar sem horfið var frá hugmyndum um niðurrif hússins og lagt til að leita frekar að samstarfsaðilum. Þrisvar hefur verið auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu Toppstöðvarinnar undir jaðaríþróttir en viðræður hafa ekki skilað niðurstöðu. Hefur því verið ákveðið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að kaupa eignina.

Umsóknir metnar út frá fleiru en kaupverði

Með hliðsjón af sögulegu mikilvægi hússins og staðsetningu verður ekki um beina sölu að ræða heldur samkeppni þar sem kaupverð mun hafa 75% vægi. Að öðru leyti verða umsóknir metnar eftir þáttum eins og hugmyndafræði, tengslum við Elliðaárdalinn, hönnun og samráði við nærumhverfi auk þess sem horft verður til fyrirhugaðrar starfsemi í húsnæðinu. Þá mun mat á kauptilboðum einnig byggja á hugmyndum bjóðenda um sjálfbærni og kolefnisfótspor. 

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum.

Sögufrægt hús á einstökum stað

Húsið var byggt árið 1946 og tekið í notkun árið 1948. Toppstöðin var olíu- og kolakynnt varaaflstöð reist með Marshall-aðstoðinni sökum bráðrar þarfar fyrir raforku á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hún gegndi mikilvægu hlutverki fram á áttunda áratug síðustu aldar en notkun hennar lagðist að mestu leyti af eftir 1980. Húsið er stálgrindarhús hnoðað saman á sama hátt og Eiffelturninn í París og sennilega eitt fárra stálgrindarhúsa af þeirri gerð á landinu. Innviðir eru nokkurn veginn óbreyttir frá byggingu og vélakosturinn, sem er frá því fyrir stríð, telst sem einstakar minjar. Stöðin er elsta gufuaflstöð á landinu. Frá árinu 2008 hefur verið rekið frumkvöðlasetur í Toppstöðinni.

Bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Auglýsing: Toppstöðin til sölu: Einstök eign í hjarta Elliðaárdalsins