Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2023

Garðyrkja Skipulagsmál

Höfði 2023 Fegrunarviðurkenning Reykjavíkurborgar
Fegrunarviðurkenning 2023

Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 voru veittar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag, mánudaginn 23. október. Reykjavíkurborg veitir árlega viðurkenningar fyrir fallegar stofnana-, fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir og fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum.

Veittar voru viðurkenningar fyrir þrjár íbúðarhúsa-, stofnana- og atvinnulóðir og fyrir vandaðar endurbætur þriggja húsa. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir veittu viðurkenningarnar í dag í Höfða. Reykjavíkurborg óskum lóðarhöfum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Eftirfarandi þrjár lóðir hljóta viðurkenningu fyrir að vera fallegar, vel útfærðar og vel hirtar:

Elliðaárstöð - útisvæði Elliðaárstöðvar

Verkefnið Elliðaárstöð - útisvæði Elliðaárstöðvar fær viðurkenningu sem stofnana- og þjónustulóð. Það er metnaðarfullt og gott fordæmi þar sem fyrirtæki gefur til samfélagsins. Grasflöt er breytt í fjölbreytt og skemmtilegt leik- og fræðslusvæði, og bílastæði er breytt í torgsvæði. Eldri gróður er varðveittur og vel viðhaldið en garðurinn við gömlu Rafstöðina hefur mikið verndargildi vegna aldurs og fagurs umhverfis. Mikið er lagt upp úr náttúrulegum efnivið. Svæðið höfðar til allra aldurshópa og kaffihús á svæðinu mun þjóna öllum gestum Elliðaárdals.

Austurhlíð 10, 12 og 14

Lóðin Austurhlíð 10, 12 og 14 fær viðurkenningu sem Fjölbýlishúsalóð. Hún er vel hönnuð og gott rými er á milli húsanna sem gerir lóðina bjarta, opna og skjólsæla. Hún er líka einstaklega vel hirt og snyrtileg. Mikill fjölbreytileiki er í plöntuvali, sem gefur hverri árstíð sinn sjarma. Dvalar- og setsvæði eru vel staðsett, skjólsæl og með góðum bekkjum. Lýsingin er einnig vel leyst. Hlutfall af gegndræpu yfirborði er mikið á lóðinni sem hjálpar úrkomu og yfirborðsvatni að komast í náttúrulega hringrás. Á lóðinni er aðgengi fyrir alla og skemmtilegar gönguleiðir sem tengjast vel við nærliggjandi umhverfi og stígakerfi.

Klapparstígur 44 

Klapparstígur 44 er íbúðarlóð. Um er að ræða skemmtilegan einkagarð sem gleður vegfarendur og fegrar götumyndina. Eigendur hafa lagt mikinn metnað í að koma upp þessum skemmtilega og óhefðbundna skrúðgarði og hafa haldið honum vel við í fjölda mörg ár. Mikið er af fjölbreyttum gróðri sem hjálpar til við að hreinsa loftið ásamt því að gegna mikilvægu hlutverki fyrir líffræðilegan fjölbreytileika í borginni. Garðurinn er afmarkaður með lágri girðingu og því auðvelt fyrir almenning sem á leið hjá að sjá inn í hann og njóta hans allan ársins hring.

Eftirfarandi þrjú hús hljóta viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur:

Bjarnarstígur 11

Húsið á Bjarnarstíg 11 var byggt árið 1913 af Samúel Jónssyni trésmíðameistara og var fyrsti eigandi þess Sigurður Jóhannesson. Það er tvílyft timburhús og var upphaflega klætt með bárujárni. Um miðja 20. öld var húsið forskalað og gluggum breytt. Nýlega hefur mikill metnaður verið lagður í endurgerð þess. Búið er að fjarlægja forskalningu, klæða veggi með bárujárni á ný, setja upp hæðarbandið og nýja glugga með tilheyrandi gluggaumgjörð. Húsið hefur endurheimt sinn upprunalega svip og er til mikillar prýði fyrir götuna.

Háteigsvegur 36 

Húsið Háteigur á Háteigsvegi 36 var byggt árið 1920 og hannað af Finni Ó. Thorlacius. Fyrsti eigandi þess var Halldór Kr. Þorsteinsson skipstjóri á Jóni forseta. Halldór bjó lengi að Háteigi ásamt konu sinni Ragnhildi Pétursdóttur frá Engey.

Húsið var upphaflega steinsteypt og málað hvítt með leirskífum á þaki. Á síðari hluta 4. áratugarins voru veggir þess steinaðir og fékk það þá sitt endanlega útlit. Á síðustu árum hafa þakskífur verið endurnýjaðar, húsið endursteinað og gluggar lagaðir. Útkoman er þessu fallega húsi til mikils sóma.

Brekkugerði 19

Brekkugerði 19 var byggt árið 1963 og hannað af arkitektinum Högnu Sigurðardóttur. Húsið var teiknað fyrir Þorvarð Þorvarðarson, framkvæmdastjóra Stjörnubíós og konu hans Erlu Lýðsson Hjaltadóttur.

Högna var fyrsta konan til að teikna hús hér á landi og vakti arkitektúr hennar strax í upphafi mikla athygli fyrir það hversu framúrstefnulegur hann var. Hún notaðist meðal annars  við sjónsteypu sem var nýlunda á þeim tíma og fylgdi því ákveðin vandræði þar sem menn áttu erfitt með að trúa því að byggingin væri fullkláruð með sína ópússuðu veggi. Hér áður fyrr veitti Reykjavíkurborg viðurkenningar fyrir falleg nýleg mannvirki, og fyrir sléttum 50 árum – árið 1973 – hlaut Brekkugerði 19 þá viðurkenningu.

Á þessu afmælisári er því gaman að geta veitt húsinu viðurkenningu fyrir þær vönduðu endurbætur sem staðið hafa yfir undanfarið, þar sem virðing fyrir upprunaleikanum var höfð að leiðarljósi.

Starfshópur

Í starfshóp sem gerði tillögu að viðurkenningum fyrir lóðir og hús árið 2023 voru:

Bjarki Þór Wíum, ráðgjafi í viðhaldi og viðgerðum eldri húsa fyrir hönd Borgarsögusafns, Hrönn Valdimarsdóttir landslagsarkitekt á umhverfis- og skipulagssviði, Marta María Jónsdóttir landslagsarkitekt á umhverfis- og skipulagssviði og Sólveig Sigurðardóttir arkitekt á umhverfis- og skipulagssviði

Fulltrúar viðurkenningarhafa

Birna Margrét Júlíusdóttir fyrir Bjarnarstíg 11. Birgir Örn Brynjólfsson fyrir Brekkugerði 19. Guðrún Helga Teitsdóttir fyrir Háteigsveg 36. Magnús Björn Brynjólfsson fyrir Austurhlíð 10, 12 og 14. Birna Bragadóttir fyrir Ellliðaárstöð. Sigríður Þorvarðardóttir og Paul Newton fyrir Klapparstíg 44.