Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar styður vakningu í loftslagsmálum og stendur fyrir fundaröðinni Liggur okkur lífið á?
Á næsta fundi 8. okt. á Kjarvalsstöðum kl. 20. verður fjallað á mannamáli um grænar fjárfestingar og skuldabréf í samhengi við hagsmuni almennings.
Umhverfis- og skipulagssvið stendur fyrir fundaröðinni ásamt Sigurborgu Ósk Haraldsdóttir, formanni skipulags- og samgönguráðs, og Líf Magneudóttur, formanni umhverfis- og heilbrigðisráðs, þar sem loftslagsmál eru skoðuð og rædd út frá ýmsum sjónarhornum. Fyrsti fundurinn fjallaði m.a. um: Hvaða áhrif getur borgarskipulag haft á loftslagsmál? Annar fundurinn um spurninguna: Er náttúran svarið? og nú verður m.a. spurt: Geta græn skuldabréf fjármagnað aðgerðir í baráttunni við loftslagsbreytingar, t.d. rafbílavæðingu, almenningssamgöngur, rafvæðingu hafna, umhverfisvænt húsnæði eða endurvinnslu? Einnig verður talað um félagslegan skuldabréfaramma.
Bjarni Herrera, framkvæmdastjóri CIRCULAR Solutions sjálfbærni- ráðgjafar, flytur upphafserindi. Aðrir sem fram koma eru Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir, framkvæmda- stjóri Markaða hjá Landsbankanum, Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður í Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, Helga Benediktsdóttir, skrifstofustjóri fjárstýringar- og innheimtuskrifstofu hjá Reykjavíkurborg og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs.
Stór græn skref á að stíga í fjárfestingum og lánveitingum á næstu árum. Nefna má að Reykjavíkurborg varð fyrst til að skrá græn skuldabréf á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf. Fossar Markaðir og CIRCULAR Solutions unnu með Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur í þeirra fyrstu útgáfum á grænum skuldabréfum til að fjármagna innviði fyrir orkuskipti, átak í gerð hjólastíga og í CarbFix verkefnið um kolefnisbindingu í basalt sem hefur notið athygli víða um heim. Af mörgu er að taka, Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, Landvernd, Foreldrar fyrir framtíðina og Ungir umhverfissinnar leitast t.d. við að afla upplýsinga um erlendar fjárfestingar Íslendinga sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis.
Gagnrýnin og uppbyggileg umræða
Markmiðið fundaraðarinnar sem hófst haustið 2014 er að færa umræðu um loftslags-, skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og uppbyggilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Fundirnir eru mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um loftslagsmál, skipulag og umhverfi borgarinnar. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni.
Skipulag fundarins er á þann veg að Bjarni flytur 25 mín erindi og Hrefna, Guðmundur, Helga og Sigurborg bæta við sjónarhornum. Eftir það er opnað fyrir samtal við aðra fundargesti.
Verið öll velkomin og heitt á könnunni
Tenglar
Viðburður á facebook um fundinn
Upptaka af fyrsta fundi Liggur lífið á?
Upptaka af öðrum fundi Er náttúran svarið?