Vinna hefst bráðlega við næsta áfanga á Hlemmsvæðinu. Strætó mun flytja sig um set á meðan framkvæmdum stendur. Ánægja hefur ríkt um þann áfanga sem fyrstur var framkvæmdur milli Hlemms og Snorrabrautar, einnig frá Bríetartúni að Hverfisgötu.
Reykjavíkurborg í samstarfi við Veitur hefja í júníbyrjun framkvæmdir á næsta áfanga á Hlemmsvæðinu sem verður kjörstaður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og framtíðarsamkomustaður Reykvíkinga og allra landsmanna.
Framkvæmdin skiptist að þessu sinni í nokkra hluta og verða þeir að einhverju leyti unnir samtímis. Viðamesti áfanginn er sá fyrsti, en þar verður fráveitulögn endurnýjuð en hún tekur við frárennsli af stóru svæði í Reykjavík. Lagnir á svæðinu eru komnar til ára sinna, þær elstu frá 1918 og 1960, og tími því kominn á endurnýjun og stækkun í samræmi við þarfir nútímans.
Strætó flytur sig um set
Bifreiðum verður ekki hleypt inn á svæðið, en aðgengi hjólandi og gangandi vegfarenda verður tryggt allan tímann. Áhersla er lögð á öryggi vegfarenda og starfsfólks.
Hlemmsvæðið aðgengilegra og fjölbreyttara fyrir öll sem leggja leið sína í miðborgina, að framkvæmdum lokum.
Strætó mun hætta akstri að Hlemmi í byrjun júní. Stoppistöðvar verða settar upp á Snorrabraut við Laugaveg og má finna nánar um það á vef Reykjavíkurborgar.
Bæði Reykjavíkurborg og Veitur hafa kynnt framkvæmdir á Hlemmi fyrir hagsmunaaðilum og vilja vera í góðum samskiptum. Áfangaskiptingu og afmörkun vinnusvæðis má sjá á vef Veitna.
Hlemmtorg mun gegna mikilvægu hlutverki
Hvað framtíðina varðar þá verða almenningssamgöngur áfram í fyrirrúmi á Hlemmi en þar mun Borgarlínan fara um ásamt Strætó, en samhliða þeim framkvæmdum verða gerðir hjólastígar norðan megin við Borgarlínuleiðina sem gera umferð hjólandi um torgið mun betri en nú er.
Gildi Hlemmtorgs í framtíðinni sem samfélagslegs staðar mun aðeins aukast en á torginu verður meðal annars svið, sem hægt verður að nota í bæði skipulagðar og óvæntar uppákomur.