Nýtt og vinalegt yfirbragð á Hlemmsvæðinu

Borgarhönnun Framkvæmdir

Laugavegur Hlemmur

Framkvæmdum sem hafa staðið yfir á Hlemmsvæðinu síðustu mánuði er nú lokið í bili. Svæðið hefur fengið nýtt og vinalegt yfirbragð með fjölbreyttum gróðurbeðum, trjám og góðu rými fyrir fólk. Hlemmur er með þessari umbreytingu festur í sessi sem mikilvægur samkomustaður og samgöngumiðstöð.

Framkvæmdir munu standa yfir í áföngum næstu ár á Hlemmsvæðinu og gefur útkoman núna góða hugmynd um hvernig lokaniðurstaðan verður. Sögulega hefur Hlemmur verið einskonar hlið inn í miðborgina, ekki síst fyrir gangandi fólk sem fær nú meira pláss og er hjólandi einnig gert hátt undir höfði með fjölda hjólastæða, sem nú þegar er búið að setja upp. 

Tenging við íslenska náttúru 

Efnisvalið á nýjum Hlemmi sýnir tengingu við íslenska náttúru með basalthellum og stóru náttúrugrjóti í beðunum. Gróðurbeðin skapa ekki aðeins skemmtilegra umhverfi heldur stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og eru um leið góðar ofanvatnslausnir með náttúrulegum farvegi fyrir regnvatn.  

Einnig er hugað að efnahagslegri og félagslegri sjálfbærni en umhverfið verður skemmtilegra fyrir rekstraraðila eins og sést á torghlutanum sem nú er búið að framkvæma á Laugavegi austan Snorrabrautar. Umhverfið er allt skemmtilegra, meðal annars með stórbættri setaðstöðu. Smáfuglarnir hafa þá verið tíðir gestir á svæðinu eftir að gróðursetningu lauk. 

Borgarlínan á Hlemmi 

Hvað framtíðina varðar þá verða almenningssamgöngur áfram í fyrirrúmi á Hlemmi en þar mun Borgarlínan fara um ásamt Strætó, en samhliða þeim framkvæmdum verða gerðir hjólastígar norðan megin við Borgarlínuleiðina sem gera umferð hjólandi um torgið mun betri en nú er. 

Gildi Hlemmtorgs í framtíðinni sem samfélagslegs staðar mun aðeins aukast en á torginu verður meðal annars svið, sem hægt verður að nota í bæði skipulagðar og óvæntar uppákomur.

Svæðið á Rauðarárstíg næst Hverfisgötu er tímabundin lausn en mun fá sitt endanlega útlit þegar Borgarlínan fer að renna í gegnum Hlemmsvæðið. Á næsta ári mun framkvæmdin teygja sig inn á torgsvæðið og ekki mun líða á löngu þar til gestir Hlemms Mathallar og aðrir geti setið úti og notið lífsins á nýju torgsvæði. 

Hvað má sjá á svæðinu? 

Á Rauðarárstíg frá Bríetartúni að Hlemmi má sjá að samfara endurnýjun lagna var gatan endurnýjuð með fullnaðarfrágangi undirbyggingar í samræmi við snið með gróðurbeðum blágrænna lausna, nýrri hellulögn í gang- og götustæði ásamt nýju snjóbræðslukerfi undir hellulögn.

Á Laugavegi má meðal annars sjá nýjar gangstéttar, setusvæði og hjólastanda og auk þess endurnýjað tvöfalt kerfi regnvatns- og skolps, heimæðar, niðurföll, hitalagnir og snjóbræðslu undir hellulögn,

Hönnuðir og framkvæmd 

Eftir hönnunarsamkeppni um nýjan og betri Hlemm árið 2017 voru tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD voru valdar til áframhaldandi þróunarvinnu við Hlemm fyrir endurhönnun svæðisins og gerð nýs deiliskipulags.

Framkvæmdin var svo unnin í góðu samstarfi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Veitna og verktakans Alma verk.  

Snjalldreifikerfi fyrir matvöruverslanir á netinu

Á Rauðarárstíg við Hverfisgötu hefur verið sett upp sjálfsafgreiðslustöð Pikkoló með 80 hólfum og CO2 kælikerfi. Fólk kaupir matvörur á netinu, fær þær sendar í  stöðina og getur nálgast vörurnar hvenær sem er. Mikil áhersla er lögð á að afgreiðslustöðvar af þessu tagi séu aðlaðandi í borgarumhverfinu og falli vel að skipulagi framtíðarinnar, þar sem íbúar þurfa ekki að fara langt til að afla sér nauðsynja. Búist er við að stöðin á Rauðarárstíg verði opnuð í næstu viku. Slíkar stöðvar á völdum stöðum geta dregið úr bílaumferð í borginni og skapað betra rými fyrir mannlíf sem er eitt af markmiðunum með nýju og betra Hlemmsvæði.